Tag Archives: MimboloveOmelas

Bestu vísindasmásögur allra tíma: The Ones Who Walk Away From Omelas

Written by admin

Smásagan The Ones Who Walk Away from Omelas efir Ursula K Le Guin kom út í safnritinu New Dimensions, volume 3 árið 1974. Hún er að mínu mati eitt áhrifamesta verk höfandarins sem átti hreint stórkostlegan feril og hlaut nafnbótina Grand Master of the Science Fiction Writers of America árið 2003 og var önnur konan sem fékk þann titil (sú fyrsta var Andre Norten sem hlaut titilinn árið 1984). Sagan hlaut Locus verðlaun og Hugo verðlaun fyrir bestu smásöguna árið 1974. Hún er til í íslenskri þýðingu Einars Leif Nielsen (það er ég) sem kom út í Nóvember árið 2018 í Tímaritinu Stína.

Sagan er ekki löng en hún er að mínu mati einstaklega áhrifamikil. Það er ein af ástæðum þess að ég kaus að þýða hana sjálfur. Á sínum tíma var ég að reyna að lesa meira af smásögum og hafði fundið mér lista yfir áhrifamiklar sögur. Eftir stutta internet leit fann ég þessa á YouTube og man enn hvað ég var sleginn eftir að hafa hlustað á hana. Sagan er þannig gerð að það er erfitt að fjalla um hana án þess spilla fyrir. Ég hvet því alla að lesa hana eða hlusta á. Hún er ekki löng, rétt rúmar fjórar blaðsíður eða um fimmtán mínútur (hlekkirnir geta víst hætt að virka með aldrinum).

Áhrifamikil ekki satt? The Ones Who Walk Away from Omelas er eitt skírasta dæmið um að eins manns útópía er annars distópía. Sagan hefur ekki hefðbundið form. Það er engin aðalhetja og ekkert uppgjör í lokin. Í staðinn byrjar Le Guin á því að byggja upp útópíuna en hún er skrifuð þannig að lesandinn geti dregið upp sýna eigin mynd. Til að mynda er lesandanum frjálst að ímynda sér hana tæknilega eða ekki, fyrir þá sem vilja eru hættulaus eiturlyf þá hafa það aðgengilegt og ef heimurinn er að þínu mati of sykursætur þá máttu bæta við kynsvalli. Allt er þetta gert til að við getu búið til hið fullkomna samfélag í okkar huga.

Le Guin byggir svo fallega útópíu að hún verður ótrúverðug þar til viðsnúningur sögunnar kemur í ljós og við látin horfast í augu við blóraböggulinn. Við erum tekin úr hinni fullkomnu veröld og leidd í dimmustu kytru sem fyrirfinnst í Ómelas:

Í kjallara sem er undir einhverri fallegri almenningsbyggingu í Ómelas eða ef til vill í kjallara á einhverju rúmgóðu einbýlishúsi er herbergi. Það hefur eina læsta hurða og enga glugga. Örlítið rykmettað ljós smeygir sér í gegnum glufurnar á fjölunum, það kemur notað frá köngulóarvefjum í glugga einhvers staðar í hinum enda kjallarans. …“

Þarna byrjar Le Guin að rífa niður heimsmyndina sem ríflega helmingur sögunnar fór í að lýsa. Við þurfum allt í einu að horfast í augu við kostnað á útópíunnar. Barnið. Einhverja hluta vegna verður Ómelas trúanlegri þegar við vitum hver kostnaðurinn er. Með þessu er dreginn upp spegill að okkar eigin samfélagi, enda eigum við flest farsíma eða kaupum föt án þess að þora að spyrja að kostnaðnum á bak við neysluna; sjálfsmorðsnet í verksmiðjum og barnaþrælkun á saumastofum.

Barnið eins og útópían er bæði ljós og óljós. Þetta er líka gert til að lesandinn geti dregið upp sína eigin mynd. Til dæmis sagt að barnið „gæti verið stelpa, gæti verið strákur“. Með þessu fjarlægir Le Guin kynjapólitík úr sögunni og leifir okkur að finna til með barninu án þess að það séu einhver formerki tengd því. Allar lýsingarnar á aðstöðunni kjallaranum og hvernig komið er fram við barnið eru hræðilegar. Í raun jafn hræðilegar og lýsingarnar á Ómelasborg eru fallegar. Maður finnur fyrir andstæðunum og getur nánast fundið bragðið af þeim en sagan er ekki búin.

Þegar búið er að sjokkera okkur með því að lýsa barninu þá kemur eitt loka högg. Flestir Ómelsabúar samþykkja örlög barnsins en þó eru örfáir:

Stundum fer unglingsstúlka eða strákur, sem hafi séð barnið, ekki heim í ofsareiði eða til þess að gráta. Þau fara, í raun, ekki heim. Stundum þagnar einnig eldri maður eða kona í einn eða tvo daga og yfirgefa svo heimili sitt. Þetta fólk fer út og gengur aleitt eftir götunni. Þau halda áfram og ganga í gegnum fallegu hliðin þar til þau eru komin út úr Ómelasborg.“

Þarna kemur titill til sögunnar: Þau sem ganga burt frá Ómelsa, The Ones Who Walk Away from Omelas. Með þessu setur sagan okkur í hlutverk Ómelasbúa. Værum eitt þeirra sem myndi ganga burt frá Ómelas? Auðvitað óskum við öll að svo sé en ég held að líklegast sé svarið líklegast, nei.

The Ones Who Walk Away from Omelas hefur oft verið borin saman við við The Lottery eftir Shirley Jackson sem kom út árið 1948. Báðar sögurnar eru kenndar í heimspeki og lagakúrsum því þær vekja upp erfiðar siðferðislegar spurningar. Samanburðurinn er skiljanlegur enda fjalla þær báðar um hvernig samfélagið er tilbúið að líta fram hjá því hærðilega þegar það hentar fjöldanum. Þetta minnir mig á tilvísun í Star Trek: The Wrath of Khan: „the needs of the many outweigh the needs of the few“.

Faðir Le Guin var þekktur félagsfræðingur og á heimili hennar bjó einn af síðustu frumbyggjum Norður Ameríku sem lifði algerlega samkvæmt gamla lífsstíl hyrðingjasamfélagsins. Hann passaði illa inn í samfélag Bandaríkjamanna og það litaði skáldskap Le Guin. Hún hugsaði því mikið um stöðu fólks í samfélögum og var mikill samfélagsrýnir eins og sést í The Ones Who Walk Away from Omelas. Hún var einnig anarkisti en samkvæmt textanum þá er Omelas anarkistasamfélag og því fullkomið í hennar augum.

Ég þekki ekki lög og reglur þessa samfélags en mig grunar að þær hafi verið einstaklega fáar.“

Hugmyndina af Ómelas fékk Le Guin þegar hún var að keyra í gegnum Oregon fylki. Hún keyrði fram hjá skilti merkt borginn Salem og var lítið í baksýnisspegilinn. Þar fékk hún hugmyndina að útópíu sinn en Omelas er Salam, O(regon) aftur á bak.

Sagan hefur haft víðtæk áhrif. Eins og áður sagði þá hefur hún verið notuð í kennslu. Leikjahöfundar tölvuleiksins Dishonored (2012) vilja meina að persónan „the Outsider“ sé undir áhrifum frá The Ones Who Walk Away from Omelas. N.K. Jemisin skrifaði smá sögu sem heiti The Ones Who Stay and Fight sem er svar við sögu Le Guin. Ég hef mikið dálæti á Jemisin og las því sögu hennar. Niðurstaða mín var að við Jemisin skiljum The Ones Who Walk Away from Omelas á ólíka vegu. Bíómyndin Us (2019) var undir áhrifum frá The Ones Who Walk Away from Omelas ásamt sögu Octaviu E Butler Speech Sounds. Þriðja sería Star Trek Discovery sækir innblástur til sögunnar sem og þátturinn Lift Us Where Suffering Cannot Reach í seríunni Star Trek: Strange New Worlds.

The Ones Who Walk Away er ein af mínu uppáhalds sögum og ég get ekki mælt nógu oft með henni.