Afþreyingarbókmenntir eru frábærar

Written by admin

Fyrir nokkru fann ég bók á Storytel sem heitir Hell Divers. Ég hafði oft séð mælt með henni á annarri hljóðbókaveitu, Audible, og ákvað að hlusta. Ég held að þessi bók sé alls ekki allra. Hún er uppfull af skrímslum og hetjum sem eru svo harðar að það er nánast kómískt. Samt var eitthvað sem heillaði mig. Ég hafði gaman af henni en skammaðist mín nánast fyrir það. Af þeim sökum beið ég með að byrja á framhaldinu í nokkra mánuði en lét svo tilleiðast og hlustaði á sex bækur í seríunni í einni beit. Ég er að vísu ekki að mæla með bókaseríunni en hún hentaði mér vel á sínum tíma. Það er nefnilega stundum þanngi að maður finnur sér eitthvað og það þarf ekki að vera allra.

Bækurnar falla undir bókaflokkinn Grimdark. Nafn hans á uppruna sinn að sækja til auglýsingatexta úr Warhammer 40,000: „In the grim darkness of the far future there is only war.“ Ef maður flettir upp á skilgreingu bókaflokksins þá fær maður eftirfarandi skilgreiningu: „a genre of fiction, especially fantasy fiction, characterized by disturbing, violent, or bleak subject matter and a dystopian setting.“ Sem sagt hér um ræðir bókaflokk þar sem allt er ömurlegt fyrir allar. Íslenskt heiti gæti jafnvel verið ömurðarskáldskapur. Frægir Grimdark höfundar eru George R.R. Martin, Joe Ambercrombie, Steven Ericsson og Mark Lawrence

En Hell Divers er ekki bara Grimdark hún er svo Grimdark að það er fyndið. Í bókaflokknum býr mannkynið í risastórum loftskipum því jörðin er óbyggilegt eyðiland. Skipin ferðast á milli staða til að finna vistir en til að ná í þær er harðasta sérsveitin í bransanum. Starf hennar er svo hættulegt að tölfræðin gengur ekki upp. Það er, að svo margir eiga að deyja ár- eða mánaðarlega í sérsveitinni að að loftskipið yrði fljótlega mannlaust. Þessi ofursveit ferðast niður á yfirborðið þar sem lífríkið hefur bara eitt takmark, að drepa fólk. Hér eru ekki lengur neinir grasbítar hvert einasta dýr er stórhættulegt rándýr, sem ætlar sér að drepa menn (aftur gengur dæmið ekki upp). En það skiptir engu máli. Í það minnst ekki fyrir mig, því þetta er bara þannig bók.

Ég gerði mér nefnilega grein fyrir að þetta er bara afþreying. Á sama hátt og þegar ég horfi á stutta gamanþætti eða lélega vísindasagna myndir. Í báðum flokkum hef ég auðvitað líka gaman af því að horfa á gæðaefni en stundum þarf maður bara afþreyingu. Það er gott að geta slökkt á heilanum í augnablik. Að gera það í lestri og áhorfi er þúsund sinnum betra en að fara á Facebook, því samfélagsmiðar hjálpa okkur engan vegin að hvílast. Þeir eiga meira sameiginlegt með spilakössum en afþreyingu. Gefa okkur dópamínskammt en ekki hvíld. Bækur og sjónvarp hjálpa okkur aftur á móti að slaka á (sumir vilja meira að segja meina að sjónvarp geri það of vel). Það er því ekkert að því að finna sér afþreyingu, líka í bókmenntum. Sama hvort það sé spennusögur Arnaldar, Fifty Shades of Grey eða í mínu tilviki Hell Divers. Við getum ekki alltaf lesið hábókmenntur enda eru sumar þeirra alveg hrútleiðinlegar. Margir aðrir hafa þegar uppgötvað hið sama, því þó að fáir viti af því, þá eru ástarsögur (e. romance) eru fimmtíu prósent af öllum seldum skáldskap (e. fiction) í Bandaríkjunum. Ástarsögur eru yfirleitt ekki minn tebolli en frábært hvað margir hafa gaman af því að lesa þær.

Varðandi Hell Divers seríuna þá get ég ekki sagt að bækurnar hafi verið mjög innihaldsríkar en þær voru spennandi og það var gaman að sjá hverju höfundurinn fann upp á næst. Mér skilst að bók númer átta hafi komið út í ár en eftir sjö bindi var ég góður. Ég veit að þetta mun halda áfram að eilífu og nú var það bara komið gott. Því alveg eins og þegar maður hefur gott af því að lesa afþreyingarbókmenntir þá er gott að vita hvenær maður á að hætta og þetta á við um allar bækur. Nota bene er þetta atriði er nokkuð sem ég á mjög erfitt með sjálfur. Ef þú ert ekki að njóta lestursins, hvort sem það er eftir fimmtíu blaðsíður, hundrað eða sjö bækur þá er allt í lagi að hættu. Við erum hvort eð er einungis að lesa fyrir okkur sjálf og ekkert er verra en að leyfa sömu leiðindarbókinni að sitja ólessinni á náttborðinu svo vikum eða jafnvel mánuðum skipti. Ég held til dæmis að The Terror eftir Dan Simmons hafi setið á mínu náttborði í rúmt ár áður en ég sagði þetta er gott og lét hana bara aftur upp í hillu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *