Bestu Vísindaskáldsögur 19. aldarinnar: Tímavélin

Written by admin

Tímavélin eftir H.G. Wells var gefin út árið 1895 og er eitt af tímamótaverkum vísindaskáldsagna. Sagan er nokkuð stutt og mætti jafnvel frekar kalla nóvellu en skáldsögu. Það gera hana þó auðvitað ekkert síðri enda einstaklega skemmtileg og langt á undan sinni samtíð.

Bókin er rammasaga og fjallar um mann sem heldur matarboð. Maðurinn er aldrei nefndur á nafn og yfirleitt kallaður tímaferðalangurinn þegar verið er að fjalla um bókina. Hann segir gestunum frá tímaferðalögum sínum til fjarlægðar framtíðar ársins 802,701. Þar hefur mannkynið hefur þróast í tvær ólíkar tegundir Eloja og Morloka. Elojar eru afkomendur hástéttarinnar. Þeir lifa í vellistinum en hafa einn ótta Morloka. Þeir eru vitgrannir og nánast saklausir. Morlokarnir eru aftur á móti afkomendur lágstéttarinnar sem þurftu að dúsa öldum saman í verksmiðjum í iðrum jarðar. Þar hafa þeir breyst í skrímsli sem eiga lítið skilið við menn lengur og éta Elojana. Tímaferðalangurinn tekur sér stöðu með Elojunum og þarf að berjast við Morlokana. Ímyndunarafl Wells virðist nánast endalaust, því bókin er mjög frumleg sérstaklega þar þegar tekið er mið af því að hún var skrifuð fyrir aldamótin 1900. Enska útgáfan er aðgengileg á netinu þar sem bókin er utan höfundaréttar.

Tímavélina kom út í íslenskri þýðingu Magnús Jónssonar frá 1967. Merkilegt er frá því að segja að á kápunni var notuð mynd af geimskipi úr bíómyndinni Innrásin frá Mars (1953). Ég þessa útgáfu hana í bókaskápnum hjá ömmu minni og hef verið sirka sjö ára. Bróðir minn sagði mér lauslega frá söguþræðinum og ég var bergnuminn. Að vísu ímyndaði ég mér Molokana sem risavaxna orma, þannig að eitthvað hefur farið úrskeiðis í frásögninni, enda á bróðir minn það til að ýkja. Ég var skiljanlega spenntur að lesa bókina en mér sagt að hún væri flókin og ég þyrfti að bíða í nokkur ár áður en ég myndi leggja í hana. Árin urðu ansi mög en að lokum las ég þessa sömu íslensku útgáfu þegar ég var farinn að nálgast þrítugt. Það breytir því ekki að bókin er að mínu mati frábær. Hún hafði það mikil áhrif á mig að mörgum árum síðar samdi ég lag um söguna (sem má finna hér).

Wells hefur stundum verið kallaður faðir vísindaskáldskapar en það er ekki alveg réttnefni því að Verne varð fyrri til skrifa vísindaskáldskap og Shelley skrifaði Frankenstein áður en Verne og Wells fæddust. Wells er samt alger risi í sögu vísindaskáldskapar og bjó til mörg sagnaminni sem eru enn mikið notuð í dag. Geimveruinnrásin (Innrásin frá Mars), tímaferðalög (Tímavélin), tækniútópíur (The Shape of Things to come), genatilraunir (The Island of Doctor Moreau) og margt fleira. Án hans væri vísindaskáldskapur ansi ólíkur því sem við þekkjum í dag. Tímavélin var fyrsta skáldsaga Wells en hann var einungis 29 ára þegar hún kom út. Wells hafði sterkar stjórnmálaskoðanir og aðhylltist sósíalisma sem má sjá í verkum hans, til dæmis í stéttaskiptingu framtíðasamfélagsins í Tímavélinni.

Bókin hefur verið kvikmynduð fjórum sinnum; sjónvarpsleikrit árið 1949, stórmynd með Rod Taylor árið 1960, sjónvarpsmynd frá 1978 og önnur stórmynd að þessu sinni með Guy Pearce árið 2002 en sú var leikstýrð af barnabarni Wells. Af þessum fjórum hafa stórmyndirnar vakið mesta eftirtekt og sú frá 1960 þykir klassík þó hún sé barn síns tíma. Hún er stutt og það er þess virði að kíkja á. Margir hafa væntanlega séð myndina frá 2002, sjálfur sá ég hana í bíó. Hún var að mínu mati vonbrigði þó hún hafi sinn sjarma.

Sagan hefur einnig verið aðlöguð á sviði og í útvarpi. Einnig hefur tímaferðalangur Wells verið gestur eða aðalhetja í öðrum verkum. Time after time er kvikmynd frá árinu 1979 þar sem aðalsögupersónan er Wells og er hann jafnframt settur í hlutverk tímaferðalangsins. Hann ferðast til samtíma myndarinnar þar sem hann þarf að kljást við Kobba kviðrista (e. Jack the Ripper). Útgáfa af tímaferðalanginum var einnig í stökum þáttum af Doctor Who, Lois & Clark: The New Adventures of Superman og kvenkyns tímaferðalangur var í sjónvarpsþáttunum Warehouse-13. Dæmin eru fleiri en ég læt þessa upptalningu duga. Flestir þessara tímaferðalanga eru samnafnar H.G. Wells.

Aðrir höfundar hafa svo prófað að skrifa framhald af Tímavélinni og samkvæmt Wikipedia eru þau í það minnsta átján. Af þeim held ég að The Time Ships eftir Stephen Baxter sé þekktust en hún var skrifuð árið 1995 og samþykkt af dánarbúi Wells.

Tímavélin er alveg einstaklega skemmtilega bók sem ég mæli með fyrir alla. Hún var nánast lygilega langt á undan sinni samtíð og bjóð til heilan undirflokk (e. sub-genre) í vísindaskáldsögum, þ.e. tímaferðalagssöguna. Hún er ein af þeim bókum sem ég mæli 100% með.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *