100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #8 Do Androids Dream of Electric Sheep

Written by admin

Bókin Do Androids Dream of Electric Sheep eftir Philip K. Dick var gefin út 1968. Hún vakti þó nokkra athygli á sínum tíma en nánast allar heimildir sem ég fann um bókina minntust líka á aðlögun Ridley Scott á bókinni, bíómyndina Blade Runner. Það má ræða hvort verkið sé áhrifameira bókin eða myndin.

Do Androids Dream of Electric Sheep er ein fyrsta hljóðbókin sem ég hlustaði á. Þetta var árið 2005, fyrir tíma Audible og Storytel. Ég fann því eintak á Piratebay og hlustaði á það á iPod-inum mínum á leiðin í og úr skóla. Gallinn við þetta fyrirkomulag er að ég gerði mér enga grein fyrir að útgáfan sem ég hlustaði á var stytt. Ég fattaði þetta ekki fyrr en 2019 þegar ég fékk Masterworks útgáfu af bókinni í afmælisgjöf.

Bókin gerist árið 1992 eftir World War Terminus (endastöðvastyrjöldina), í seinni útgáfum var ártalið fært til 2021. Flestir hafa flúið jörðina og þau fáu sem eftir eru lifa tómlegum heimi. Dick býr til heim þar sem eru raðir af stórum fjölbýlishús en hvert þeirra er með örfáa íbúa sem gerir þessa veröld einmannlega. Bókin segir frá Rick Deckard, mannaveiðara (e. bounty hunter) sem er fenginn til að elta upp strokuvélmenni. Vélmennin hafa flúið frá Mars til Jarðarinnar. Samhliða sögunni um Deckard fær lesandinn að fylgjast með John Isidore sem skýtur skjóli yfir vélmennin á meðan þau eru á flótta.

Eitt megin þema bókarinnar er samkennd en það er eitt af því fáa sem greinir af menn og vélmenni í þessum heimi. Þemað um samkennd kemur fram á nokkra vegu. Eftir heimstyrjöldina eru nánast öll dýr útdauð. Þau fáu sem lifðu eru höfð sem gæludýr og eru nú orðin stöðutákn á meðan manna. Deckard er nýbúin að missa geit og haðfi einungis efn á gervikind sem hann geimir á þakinu og lýgur að nágrönnunum að sé alvöru. Vélmennin deila ekki þessari samkennd með dýrunum og það er undirstrikað í einstaklega áhrifamikilli senu þar sem þau finna og misþyrma könguló. Annað sem tekur á samkenndarþemanu er spámaðurinn Wilbur Mercer og trúarbrögðin sem hann boðar í gegnum sýndarveruleika. Þar fá iðkendur að fylgja honum í gegnum eyðimörk og upplifa þjáningar hans á meðan múgur misþyrmir Mercer.

Af þessu má sjá að Blade Runner er ekki mjög nákvæm aðlögun á Do Androids Dream of Electric Sheep. Miklu var breytt, til að byrja með var titlinum breytt í Blade Runner (íslensku Sporfari) en nafnið kemur frá annarri bók eftir William S. Burroughs. Vélmennin eru hættulegri í myndinni, eiginkona Dekard var ekki hluti af myndinni né heldur spámaðurinn Mercer og svo spilar Isidore mun stærra hlutverk í bókinni. Margt annað var ólíkt en samt er einnig margt sem myndin sækir í söguna. Myndin nánast sjálfstætt verk og er einnig mikilvægt verk í sögu vísindaskáldsagna. Rétt áður en Dick lést fékk hann að sjá brot úr myndinni og var heillaður. Hann sagði að myndinni hefði tekist að veita heimi hans líf.

Blade Runner hafði mikil áhrif á Cyberpunk (ísl. vélpönk) hreyfinguna sem kom fram á 9. áratugnum og af sumum verið kölluð upphaf þeirrar stefnu. Áhrif bíómyndarinnar eru í raun svo mikil að hægt er að halda því fram bókin eigin myndinni allt að þakka en jafnframt má færa rök fyrir hinu gagnstæða. Bókin var langt á undan sinni samtíð. Hún var útnefnd til Nebula verðlaunanna árið 1968 en tapaði fyrir Rite of Passage eftir Alexei Panshin (aldrei heyrt um bók eða höfund áður). Ólíkt öðrum höfundum eins og Isaac Asimov þá bjó Dick til vélmenni sem voru gerð úr lífrænum hlutum og því nánast óaðgreinanlegir frá mönnum. Jafnvel mætti velta fyrir sér hvort gervimaður eða þjarki væri betri þýðing á orðinu android þegar bókin er annars vegar. Ég ætla samt að halda mér við vélmenni í þessari grein.

Bókin aldrei verið þýdd á íslensku en talsvert verið skrifað um Blade Runner á íslensku. Eins og sagt hefur verið frá þá hefur bæði bókin og myndin haft mikil áhrif. Bókin hefur verið aðlöguð sem útvarpsleikrit, í leikhúsi og sem myndasaga. Myndasagan er sérstaklega eftirtektarverð þar sem hún inniheldur allan textann úr bókinni. Fjögur framhöld skrifuð sem eru ekki eftir Dick og reynt er að tengja myndina og bókina þó verkin séu ólík. Árið 2017 kom svo úr framhald af myndinni, Blade Runner 2049 sem sækir einnig í bókina til mynda.

Do Androids Dream of Electric Sheep er einstakt verk sem aðdáendur myndarinnar ættu algerlega að skoða. Verkin eru þó mjög ólík og ekki endilega samasemmerki á milli þess að elska myndina og bókina.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *