100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #7 Foundation

Written by admin

Dálítið er síðan ég skellti í síðasta pistil en við fluttum hérna í Köben og fórum svo í sumarfrí þannig að það er búið að vera nóg um að vera. Nú er þó loksins komið að því að fjalla um næstu bók á listanum góða, sem er Foundation eftir Isaac Asimov.

Árþúsundir í framtíðinni ríkir risavaxið keisaraveldi yfir allri vetrarbrautinni og uppruni mannkyns á Jörðinni er nánast gleymdur. Miðja veldisins er staðsett á plánetunni Trantor en þar er hver einasti fermetri byggður. Mannkynið dvelst neðanjarðar og einungis ferðamenn og skólabörn skoða yfirborðið. Í þessu framtíðarsamfélagi hefur vísindamaðurinn Hari Seldon uppgötvað nýja fræðigrein sem sameinar stærðfræði, félags-/sálfræði og mannkynssögu. Nýja fræðigreinin er kölluð sálarsagnfræði* (e. psychohistory). Hún nýtir tölfræðilegar aðferðir til að spá fyrir um hegðun samfélaga fram í tímann. Niðurstöður rannsókna Seldon sýna að keisaraveldi mannkyns riði að falli og ef ekkert er gert muni fallið leiða af sér þrjátíuþúsund ára tímabil fáfræði. Hari hryndir því af stað áætlun til að hindra þessa þróun.

Ég las Foundation fyrst árið 2005 á meðan ég var í framhaldsnámi í Danmörku. Ég man að það tók ekki langan tíma að klára bókina enda hafði ég hana alltaf með mér í strætó eða lestina. Hún var næstum of stór til að geyma í vasanum en þetta gekk þó (ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög kúl á þessum árum haha). Ég var svo ánægður með lesturinn að á næstu mánuðum þar á eftir kláraði ég tvö framhöld og eina prequel.

Foundation er ein áhrifamesta vísindaskáldsaga allra tíma. Til marks um það var árið 1966 veitt sérstök Hugo verðlaun fyrir bestur seríu allra tíma og Foundation vann. Hinar seríurnar sem tilnefndar voru Lord of the Rings eftir Tolkien, Future History eftir Heinlein, Barsoom eftir Burroughs og Lensman E.E. Doc. Smith.

Sumum finnst kannski skrítið að Foundation hafði þótt betri en Lord of the Rings en hvort það sé rétt get ég ekki sagt. Bókin setti þó fram fullt af sagnaminnum sem höfði ekki þekkst fyrir þennan tíma. Til dæmis er þetta fyrsta bókin þar sem sagt er frá veldi manna sem spannar heila vetrarbraut og þúsundir ára. Í Foundation er talað er um alheimsalfræðiorðabók sem síðar hafði áhrif Douglas Adams og Hitchhikers Guide to the Galaxy. Lýsingarnar á Trantor hljóma ansi mikið eins og Coruscant í Star Wars. Dune eftir Frank Herbert er sögð vera í beinni samræðu við Foundation seríuna. Herbert byrjar á svipuðum stað og Asimov, keisaraveldi mannkyns sem er í hnignun, en fær algerlega aðra niðurstöðu. En auk alls þessa hefur Foundation haft áhrif á allt frá Marvel myndasögum að Deep Purple lögum.

Asimov og ritstjóri hans sóttu innblástur í fall Rómarveldis (The History of the Decline and Fall of the Roman Empire eftir Edward Gibbon) og er sagan í fyrstu bókinni mynduð úr fimm smásögum sem spanna 150 ár. Í hverri sögu býr Asimov til átök sem ógna áætlun Seldon. Honum tekst þó alltaf að finna lausn á vandamálinu með rökhyggju en ekki ofbeldi. Bókin var gefin út 1951, en sögurnar fimm höfðu áður verið gefnar út í Astounding Science Fiction á árunum 1942 til 1944. Þær eru því dálítið „dated“ enda skrifuð í hefð gullaldar vísindaskáldsagna. Meiri áhersla lögð á hugmyndir en persónusköpun. Þetta er ekki endilega slæmt en hefur neikvæð áhrif á suma lesendur. Verra er þó að meira mætti vera af áhugaverðum kvenpersónum í sögunum. Ég myndi samt alltaf mæla með að gefa bókinni tækifæri þar sem hún er einstaklega áhugaverð.

Lengi hefur verið reynt að kvikmynda Foundation. Til að mynda átti að kvikmynda söguna árið 1998 hjá New Line Cinema og allt var tilbúið þegar hætt var við og í staðinn var ákveðið að veita Peter Jackson fjármagn til að kvikmynda Lord of the Rings. Síðan þá hafa margar aðrar tilraunir verið gerðar og til dæmis reyndi stórslysaleikstjórinn Roland Emerich að koma verkefni á koppinn en það gekk ekki eftir. Þetta hafðist þó að lokum því að nýir þættir eru í bígerð hjá Apple og verða frumsýndir í September 2021 (sjá stilkluna að neðan). Mér finnst mjög áhugavert að nýja Dune kvikmyndin kemur út mánuði síðar og því hægt að skoða hvort þessar sögur eigi enn upp á pallborðið eða hvort þær hafi verið of áhrifamiklar eins og John Carter og hafi því ekki mikið nýtt fram að færa**.

Foundation er fyrsta bókin á listanum sem aldrei hefur verið þýdd á íslensku sem er synd. Bókin er þó auðveld lestrar og ekki löng. Hún er fyrsta bókin í þríleik en eftir að henni var lokið ákvað Asimov að skrifa fjórar bækur til viðbótar. Bókin kemur með einstaklega áhugaverðar pælingar og situr í manni lengi eftir að lestrinum er lokið.

*Mín þýðing á orðinu og er kannski ekki sú besta en maður verður að reyna.

**Þetta er kannski efni í annan pistil en ég vildi bara eilítið útskýra mál mitt. Til eru margar ástæður fyrir því af hverju myndin John Carter gekk ill, meðal annars léleg auglýsingaherferð. Sumir hafa þó fleygt því fram að bókin kom út árið 1912 og því allt sem gerði hana sérstaka á sínum tíma verið nýtt í önnur verk. Til að mynda sótti Star Wars margt í Princess of Mars og líka í Foundation. John Carter hafi því komið út of seint til að vekja sömu undrun hjá bíógestum og hún hafði áður gert hjá lesendum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *