100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #6 Brave New World

Written by admin

Hvað gerist ef við fórnum öllu fyrir hamingjuna? Þar á meðal fjölskyldunni, fegurðinni og frelsinu. Er það þess virði? Þetta er spurningin sem Brave New World setur fram. Ekki nóg með það bókin sýnir okkur kosti þess og galla að búa í framtíðasamfélagi þar allir hafa fyrir fram ákveðið hlutverk en eru jafnframt sáttir með sitt hlutskipti.

Brave New World eftir Aldous Huxley er í sjötta sæti listans. Bókin var gefin út 1932 og þykir klassísk verk bæði meðal vísindaskáldsagna og klassískra bókmennta. Brave New World, eða Veröld ný og góð var þýdd árið 1988 af Kristjáni Oddssyni.

Útópía eins mans er distópía annars. Þetta er oft sagt þegar verið er að ræða distópíur en á sérstaklega vel við þegar Brave New World er annars vegar. Í upphafi bókarinnar er sagt frá hvernig mannfólk þessa framtíðarheims er búið til í tilraunaglösum og úthlutað stétt. Búið er að kortleggja alla fyrir fæðingu til að ákveða hvort þeim hentar betur fræðistörf, þjónustustörf eða verkamannastörf. Efst er Alfa stéttin og neðst er epsilon. Börnum er kennt frá unga aldri að kynlíf sé ekkert að óttast og eitthvað sem allir deila og ekkert sé til sem heitir náið einkvænis samband. Fullorðið fólk skiptir um hjásvæfur jafn reglulega og sokka og orgíur eru nánast eins of hver annar samkvæmisleikur.

Við kynnumst söguhetjunni Bernard sem er í alfa stétt en hann er jafnframt gallað eintak. Eitthvað fór úrskeiðis þegar hann var fóstur og hefur það hrjáð hann alla ævi. Bernard passar því ekki inn í samfélagið og vekur óþægindi hjá samborgurum sínum og er hótað að senda hann í útlegð til Íslands. Huxley fannst klakinn greinilega ekki jafn heillandi og okkur Íslendingum. Bernard fer með kærustu sinni á verndarsvæði í New Mexico þar þau finna villimanninn John. Móður hans heimsótti verndarsvæðið fyrir löngu en varð viðskila við ferðafélaga sína. Þetta leiddi til þess að John fæddist í útleigð. Móðir hans passaði illa inn í samfélag verndarsvæðisins sem leiddi til útskúfun þeirra beggja. Nú vill Bernard fara með John til London en það mun einungis leiða til annarrar útskúfunar.

John er tvímælalaust áhugaverðasta persónan í Brave New World og fer í hlutverk gestsins sem heldur í hönd okkar á meðan við ferðumst í gegnum þessa ókunnugu veröld. Hann bendir á vankanta og passar illa inn í samfélag framtíðarinnar eins og lesandinn.

Brave New World er sérstök sem distópía. Hún er ekki eins lituð af einræði 20. aldarinnar. Hún er gefin út áður en Hilter náði völdum og ógnaröld Stalín var ekki búin að ná hámarki. Bókin einbeitir sér frekar að því að sýna lesandanum veröld þar sem mannkynið er búið að gefa eftir sínum einföldustu löstum. Aðgengi að eiturlyfjum og kynlífi algert og samfélagið gengur áfram á þessari einföldu hamingju sem gefur engum dýpri uppfyllingu.

Ég las Brave New World fyrst 13 ára og fannst bókin mögnum. Á þeim tíma þótti mér sumt í þessu framtíðarsamfélagi Huxley eftirsóknarvert en það hefur líklegast eitthvað með unglingahormón að gera. Ég las bókin svo aftur fyrir nokkrum árum og hún var ögn þurrari en mig minnti. Hún er samt alger gersemi.

Brave New World hefur verið kvikmynduð tvisvar 1980 og 1998. Ég sá eitthvað í myndina frá ’98 og get ekki sagt að ég mæli með henni. Í fyrra var sjónvarpssería framleidd fyrir Peacock í Bandaríkjunum. Hún fékk meðalgóða dóma en ekki nægilega gott áhorf til að réttlæta aðra seríu. Bókin hefur einnig verið aðlöguð fyrir bæði leikrit og útvarp.

Eins og allar bækurnar sem ég hef fjallað um er Brave New World þess virði að lesa en eins og 1984 þá er dálítið þurr ekki mikill hasar í bókinni. Hún bætir það samt upp með einstaklega frumlegri heimsmynd sem lætur mann hugsa um sitt eigið samfélag og hvert það stefni í framtíðinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *