100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #4 Fahrenheit 451

Written by admin

Fjórða bókin á listanum er Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury sem er ein af mínum uppáhaldsbókum. Ég kynntist bókinni seint á táningsaldri en á þeim tíma var ég sólginn í fréttir um kvikmyndaframleiðslu. Ég hafði alltaf haft gaman af bíómyndum og með tilkomu Internetsins var allt slúðrið frá Hollywood rétt handan við lyklaborðið. Rétt fyrir aldamótin var greint frá því að Mel Gibson ætlaði að leikstýra aðlögun á klassísku vísindaskáldsögunni Fahrenheit 451. Á þessum tíma var hann einn vinsælasti leikari heims og hafði síðast leikstýrt Braveheart árið 1995.

Fljótlega eftir þetta fór ég að sjá bókina víðs vegar í bókabúðum. Kápan var mjög áberandi með manni úr pappír sem var alelda. Á þessum tíma var ég sannfærður að kvikmyndaaðlögum jafngildi góðri bók. Ég varð mér því út um eintak og varð algerlega heillaður. Einungis Hobbitinn hefur haft meiri áhrif á mig en Fahrenheit 451. Eftir að ég hafði klárað bókina reyndi ég að leggja tilvitnanir á minnið, byrjaði að skrifa smásögur aftur eftir nokkra ára hlé og fór að lesa mun meira en áður.

Fahrenheit 451 segir frá Guy Montag sem er slökkviliðsmaður í ótilgreindu framtíðarsamfélagi. Hann starfar þó ekki við að slökkva elda heldur kveikja þá, því starf hans felst í að brenna bækur. Montag er þó ekki sannfærður um starf sitt og eykst þessi efi hans dag einn þegar hann kynnist ungri stúlku sem heitir Clarisse.

Samkvæmt Bradbury kom fyrsti neistinn að Fahrenheit 451 fram í smásögunni The Padestrian sem heitir Fótgangandinn í íslenskri þýðingu eftir Stefán Baldursson. En þá sögu skrifaði Bradbury eftir að lögreglumaður hafði afskipti af honum og vini hans í kvöldgöngu. Á þessum tíma skrifaði Bradbury að mestu smásögur sem hann seldi í svokölluð pulp tímarit. Tímaritin þóttu ekki merkilegur pappír bókstaflega þar sem þau voru prentuð á trákvoðapappír sem var ódýrari en hefðbundin bókapappír. Það er akkúrat úr þessum tímaritum þar sem svo kölluð gullöld vísindaskáldsagna á rætur sínar að rekja. Bradbury ákvað svo að vinna meira með smásöguna og kvöld eitt beygði Fótgangandinn fyrir horn þar sem hann rakst þá á unga stúlku sem hét Clarisse. Þar var komin upphafssenan í nýrri sögu sem varð talsvert lengri. Sú saga fékk nafnið The Fireman eða Slökkviliðsmaðurinn og var um 25 þúsund orð eða nóvella. Báðar þessar sögur voru skrifaðar í kjallara bókasafns í Los Angeles þar sem Bardbury gat leigt ritvél fyrir tíu cent á hálftíma. Hann varð því að nýta tímann vel og var the Fireman skrifuð á einungis níu dögum.

Báðar þessar sögur voru svo gefnar út 1951 ári eftir að Bradbury gaf út smásagnasafnið The Martian Chronicles (bein þýðing væri Annálar Marsbúanna), The Pedestrian kom út í fréttablaðinu The Reporter og The Fireman í pulp tímaritinu Galaxy Science Fiction. The Fireman var svo tæplega tvöfölduð í lengd og úr varð Fahrenheit 451 sem var gefin út í október 1953. Í mars, apríl og maí var bókin einnig gefin út sem framhaldssaga í Playboy sem var þá nýstofnað. Fahrenheit 451 var vel tekið eftir útgáfu, gekk ágætlega í sölu og seldist svo meira með hverju ári og gerir enn.

Eitt af megin þemum Fahrenheit 451 er málfrelsi. Bókabrennur eru ekki nýjar af nálinni en bókin ítrar þá hugmynd og býr til samfélag þar sem bókabrennur eru hvunndagslegur hlutur. Þrátt fyrir umfjöllunarefnið hefur Fahrenheit 451 verið bönnuð í nokkrum skólum í Bandaríkjunum og nú síðast árið 2018. Hún á því enn við í dag þrátt fyrir að vera 70 ára gömul. Annað þema í bókinni er einföldun menningar. Hvernig með tilkomu sjónvarps sé hún gerð auðmeltanlegri og auðveldara sé fyrir fólk að hafa einu og sömu skoðun. Því í heimi Fahrenheit 451 var engin ógnarstjórn sem setti á lög um bókabrennur gegn vilja samfélagsins. Það er sérstaklega tekið fram að samfélagið hafi gert sér þetta sjálft. Það má því færa rök fyrir því að bókin hafi spáð fyrir um falsfréttir og samfélagsbúbblur löngu áður en internetið kom til sögunnar.

Fahrenheit 451 er að mínu mati best af hinum þremur stóru distópíum, hinar eru 1984 og Brave New World. Hún er vel skrifuð, ljóðræn, með djúpar persónur og ólíkt hinum tveimur bókunum með sterkan söguþráð (e. plot). Hún hefur verið þýdd tvisvar á íslensku af Þórdís Bachmann árið 2019 og af Magnús Jónsson árði 1968. Hún var kvikmynduð tvisvar, árið 1966 af François Truffaut og árið 2018. Af þessum tveimur útgáfum þykir sú fyrri bera af og sú seinni vera frekar léleg. Bókin hefur einnig verið aðlöguð í útvarp, leikhús, tölvuleiki og sem teiknimyndasaga. Fahrenheit 451 er sannkölluð klassík sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *