100 Bestu Vísindaskáldsögur 20 aldarinnar: #3 The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy

Written by admin

Tók talsvert lengri tíma að skrifa um þriðju bókina á listanum. Veit ekki af hverju, kannski er erfiðara að finna áhugaverðar staðreyndira um bók sem er svona stór hluti af almannavitund.

Í fyrsta ensku tímanum í menntaskóla fékk ég blað með lesefni vetrarins. Hingað til höfðu leslistar í ensku verið fullir af þurrum námsbókum eða einföldum sögum en nú var eitthvað annað upp á teningnum. Þarna voru fjórar skáldsögur og allt kunnuglegir titlar: The Great Gatsby, To Kill a Mockingbird, The Hobbit og The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy. Ég hefði heyrt um fyrstu tvær bækurnar en vissi ekki um hvað þær fjölluðu, Hobbittinn var uppáhaldsbókin mín á þessum tíma en ég var spenntastur fyrir Hitchhiker’s Guide. Tæpu ári áður hafði ég heyrt útvarpsþátt á RÁS 2 þar sem fjallaði um skáldsögu þar sem puttaferðalanga ferðuðust um vetrarbrautina með ferðahandbók. Ég hafði oft hugsað um bókina og þarna var hún komin, þessu yrði því ekki freistað lengur. Ég verð að viðurkenna að þetta var góður bókavetur.

Á miðjum vetri var The Hitchhiker’s Guide to the Galxy sett fyrir og ég renndi í gegnum hana á methraða og naut þess í botn. Þetta var nokkuð ólíkt mínum lestrarvenjum á þessum árum því vanalega var ég lengi að klára bækur. Las kannski eina eða tvær blaðsíður á kvöldi og oft ekki neitt. Ég var og ungur og of vitlaus til að gefast upp á bókum sem mér fannst leiðinlegar. The Hitchhiker’s Guide var þó allt öðruvísi og ég spólaði í gegnum bókina.

Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina, eins og hún heitir í þýðingu Kristjáns Kristmannssonar frá 1999, er skrifuð af Douglas Adams og var fyrst gefin út sem útvarpsleikrit árið 1978. Útvarpsleikritið sló í gegn og ári síðar var bókin gefin út. Þremur mánuðum síðar var búið að selja 250 þúsund eintök. Bókin var fljótt klassísk og er hægt að finna tilvísanir í hana í mörgum öðrum verkum og víða annars staðar. Til að mynda er Handklæðadagur (e. Towel day) haldinn hátíðlegur 25. maí hvert ár, víða má finna tilvísun í töluna 42 og á sporbaug um jörðu er sportbíll þar sem „Don’t Panic“ stendur skýrum stöfum á mælaborðinu.

Í fyrsta kaflanum í The Hitchhiker’s Guide to the to the Galaxy er Jörðin er sprengd í loft um og eftir það verður sagan meira absúrd með hverri blaðsíðu. Ég hef oft átt erfitt með að tengja við húmor í bókum en The Hitchhiker Guide náði algerlega til mín. Hún er sprenghlægileg, stutt, auðlesin og þræl skemmtileg. Mæli með því að að allir kíki á hana. Ég hafði þó meira gaman að lesa hana en að hlusta á hana. Mér fannst eins og að það tapaðist eitthvað í hljóðbókinni sem er skrítið ef miðað er við uppruna hennar sem útvarpsleikrits.

Bókin var aðlöguð í sjónvarp árið í Bretlandi árið 1981, gerð að stórmynd frá Hollywood árið 2005 og stefnt er að því að gera aðra sjónvarpsseríu í framtíðinni. Breska sjónvarpsserían frá 9. áratugnum þykir ódýr en góð og að sama skapi þykir Hollywood bíómyndin dýr en ekkert sérstök, þó hún hafi vissulega sinn sjarma. Þrátt fyrir allar þessar vinsældir þá var Douglas Adams haldinn mikilli frestunaráráttu og eina leiðinn sem hægt var að fá hann til að skrifa eitthvað var að keyra höfundinn upp í sveit og skilja hann einan eftir á sveitahóteli með ritvél þar sem ekkert annað var í boði. Þetta virðist hafa virkað því Adams skrifaði fjögur framhöld af bókinni og er heildar verkið oft markaðssett sem trílógía í fimm hlutum. Bækurnar eru allar stuttar, í svipuðum stíl og fyrsta bókin og lengi vel var hægt að kaupa þær allar í einum doðranti.

The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy er bók sem margir hafa lesið. Ég hef sjálfur lesið hana að minnsta kosti þrisvar en hef alltaf jafn gaman af henni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *