Sci-Fi top 100 #1: Ender’s Game

Written by admin

Eins og sagði frá í færslunni um Dune þá er áætlunin að skrifa nokkra pistla um bækurnar á þessum lista. Ég hef lesið nánast allar og sumar oftar en einu sinni og stefnan er að taka ein bók fyrir í hveri viku. Næsta bók sem ég ætla að fjalla um er Ender’s Game, sem er ein umdeildasta vísindaskáldsaga allra tíma, skiljanlega, en hún er jafnframt í fyrsta sæti listans (og er nb í fyrsta sæti á mörgum listum yfir SFF bækur).

Ég ætla að byrja að ræða söguna og svo færa sig yfir í umdeildu atriðin. Ég las Ender’s Game rétt eftir aldamótin. Ég var staddur í Flórída og skellti ég mér í bókabúðina Barnes & Nobel. Innan um endalausa bókarekka fann ég bókarkápu með geimskipi og fyrir ofan voru tvær stjörnur sem tilgreindu að bókin hefði unnið bæði Hugo og Nebula verðlaunin. Á þeim tíma hafði ég heyrt um bæði verðlaunin en vissi lítið um þau. Þar sem búið var að skella þessu á kápunni á áberandi stað áleit ég að þetta væri gæðastimpill sem reyndist raunin því hafði ótrúlega gaman af bókinni sem var auðlesin og spennandi. Eftir þetta leitaði ég uppi bækur sem höfðu unnið verðlaunin og fann oft algera gimsteina.

Ender’s Game fjallar í stuttu máli um Ender Wiggin, sex ára dreng sem er sendur í herþjálfumbúðir. Herir heimsins hafa ákveðið að þjálfa börn í von um að finna hernaðarsnilling sem getur bjargað mannkyninu frá geimverum. Geimverurnar hafa þegar ráðist á Jörðina og sú orrusta vannst með naumindum. Við fylgjum Ender í gegnum þjálfunina sem á sér stað í sporbaug svo börnin þar öðlist betri skilning á þrívíddar hernaðaraðgerðum en það er nauðsynlegt þegar geimorrustur eru annars vegar. Bókin sækir því í vísindaskáldsagnaarfleið bóka eins og Starship Troopers og The Forever War.

Samkvæmt höfundi þá var aldei áætlun hans að skrifa Ender’s Game. Upphaflega ætlaði hann að skrifa bók sem síðar varð Ender’s Game og heitir The Speaker of the Dead. Forsaga aðalsöguhetjunnar í Speaker of the Dead var svo flókin að höfundurinn ákvað að koma henni til skila í smásögu. Smásaga varð vinsæl og höfundurinn ákvað að gera úr henni heila bók sem varð bókin Ender’s Game sem var gefin út 1985. Hún hefur verið mjög áhrifamikil og vinsæl og er meðal annars skildulesning í sumum herdeildum bandaríska hersins. Bókin var kvikmynduð árið 2013 en sú mynd var eitt af stærstu floppum ársins og tapaði kvikmyndaframleiðandinn næstum 70 milljón dollurum.

En þegar fjallað er um Ender´s Game þarf að ræða nokkur einstaklega neikvæð atriði. Í fyrsta lagi er höfundur bókarinnar Orson Scott Card á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Snemma á tíunda áratugnum skrifaði hann ritgerð þar sem hann mælti með því að samkynhneigð yrði bönnuð, hann hefur einnig stutt auglýsingaherferðir og stjórnmálamenn fjárhagslega sem berjast gegn samkynhneigð og/eða hjónaböndum samkynhneigðra. Eftir að ég komst af þessu set ég alltaf fyrirvara þegar Card er annars vegar. Ef fólk vill kaupa verk hans er betra að leita í fornbókabúðum eða hreinlega stela þeim af netinu, því annars er möguleiki á að maður sé beint að styðja fjárhagslega við einstaklega slæma málstaði. En jafnframt ætla ég ekki að dæma þá sem elska bækur Card og skil vel að þeim finnist þær skemmtilegar.

Annað sem er rétt að nefna eru þemun í Ender’s Game. Bókin er vissulega skemmtileg og auðlesin en ef maður fer að rýni í textann er hægt að túlka hann á neikvæðan hátt. Ender fremur fleiri en eitt morð/manndráp sem reynt er að réttlæta, jafnvel þó að fórnarlömbin séu börn. Hefnd, ofbeldi og þjóðarmorð eru allt hlutir sem börn þurfa að takast á við í bókinni og fullorðna fólkið réttlætir það því hættan af geimverunum er svo mikil.

Ender’s Game er sérstök bók sem erfitt er að mæla með sökum Card en jafnframt er hún stólpi í sögu vísindaskáldsagna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *