Var að lesa: Flóttin til skýjanna

Written by admin

Ég verslaði mér nokkrar bækur á Skinnu.is í síðustu viku í tilefni af afmæli síðunnar. Ég var fljótur að
spóla í gegnum þær allar og var bara nokkuð sáttur með það sem ég keypti. Ein af þessum bókum
var Flóttinn til skýjanna, sem er nýútkomin bók eftir Kristján Már Gunnarsson, hægt er að kaupa bókina hér. Þetta er ævintýrabók
sem fellur undir tvo bókaflokka sem skilgreindir hafa verið erlendis. Annars vegar ‚ steampunk ‘ eða
gufupönk og hins vegar ‚ alternative history‘ en það hugtak öllu erfiðra að þíða (eru þið nokkuð með
hugmyndir?).

Opinber lýsing á söguþræði bókarinnar er eftirfarandi:
Sagan gerist árið 1407 e.kr. Rómverska heimsveldið féll aldrei heldur óx og dafnaði. Flugskip svífa
um himininn og landamæri veldisins þenjast út. Umsátursástand myndast um borgina Bushehr
sem hrindir af stað atburðum sem munu skekja stoðir veldisins. Segir sagan frá Trinius, sem er
rómverskur og endar sem strandaglópur í borginni þegar umsátrið hefst. Hann tekur höndum saman
við Júlíu, skipstjóra sjóræningjaskipsins Ariadne. Saman hrinda þau af stað flóttaáætlun sem er bæði
stórhættulega og snarbrjáluð. En þegar hið mögulega þrýtur, reynirðu hið ómögulega. Flóttinn til
skýjanna er fyrsta bók í Rómarþríleiknum, þar sem loftskipssjóræningjar og leynifélög berjast um völd
og áhrif. Leyndarmál úr fortíð veldisins koma í ljós og munu móta framtíð þess.

Enska hugtakið ‘Swashbuckling adventure’ lýsir bókinni mjög vel. Sagan er fljót að fara á flug og
atburðarásin er hröð. Persónur eru góðar, söguþráðurinn skilar sínu og textinn flæðir vel. Ég hef lesið
nokkuð af íslenskum furðusögum og er þessi með þeim betri. Hún er stutt og auðlesin, sem er
jákvætt. Einhverja hluta vegna þá minnir sagan mig Prinsessuna af Mars þó þessar bækur séu mjög
ólíkar að mörgu leiti.

Bókin er ekki laus við galla en flestir þeirra eru smekksatriði. Ég hefði vilja hafa kort fremst til að átta
mig betur á sögusviðinu. Nöfn sögupersóna eru skrifuð með erlendri stafsetningu og hljómfræði, sem
mér fannst óþægilegt. Þetta eru bæði atriði sem skipta litlu máli og koma sögunni sjálfri ekki við. Ég
hefði sjálfur viljað meira afgerandi endi en þar sem þetta er fyrsta bók af þremur (held ég) þá verður
maður víst að bíða eftir spenntur framhaldinu.

Þetta er fínasti reyfari. Góð skemmtun til dæmis fyrir þá sem eru á leið upp í sumarbústað (eða bara almennt).
Get hiklaust mælt með henni fyrir þá sem hafa gaman af góðum ævintýrum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *