Monthly Archives: August 2022

Afþreyingarbókmenntir eru frábærar

Written by admin

Fyrir nokkru fann ég bók á Storytel sem heitir Hell Divers. Ég hafði oft séð mælt með henni á annarri hljóðbókaveitu, Audible, og ákvað að hlusta. Ég held að þessi bók sé alls ekki allra. Hún er uppfull af skrímslum og hetjum sem eru svo harðar að það er nánast kómískt. Samt var eitthvað sem heillaði mig. Ég hafði gaman af henni en skammaðist mín nánast fyrir það. Af þeim sökum beið ég með að byrja á framhaldinu í nokkra mánuði en lét svo tilleiðast og hlustaði á sex bækur í seríunni í einni beit. Ég er að vísu ekki að mæla með bókaseríunni en hún hentaði mér vel á sínum tíma. Það er nefnilega stundum þanngi að maður finnur sér eitthvað og það þarf ekki að vera allra.

Bækurnar falla undir bókaflokkinn Grimdark. Nafn hans á uppruna sinn að sækja til auglýsingatexta úr Warhammer 40,000: „In the grim darkness of the far future there is only war.“ Ef maður flettir upp á skilgreingu bókaflokksins þá fær maður eftirfarandi skilgreiningu: „a genre of fiction, especially fantasy fiction, characterized by disturbing, violent, or bleak subject matter and a dystopian setting.“ Sem sagt hér um ræðir bókaflokk þar sem allt er ömurlegt fyrir allar. Íslenskt heiti gæti jafnvel verið ömurðarskáldskapur. Frægir Grimdark höfundar eru George R.R. Martin, Joe Ambercrombie, Steven Ericsson og Mark Lawrence

En Hell Divers er ekki bara Grimdark hún er svo Grimdark að það er fyndið. Í bókaflokknum býr mannkynið í risastórum loftskipum því jörðin er óbyggilegt eyðiland. Skipin ferðast á milli staða til að finna vistir en til að ná í þær er harðasta sérsveitin í bransanum. Starf hennar er svo hættulegt að tölfræðin gengur ekki upp. Það er, að svo margir eiga að deyja ár- eða mánaðarlega í sérsveitinni að að loftskipið yrði fljótlega mannlaust. Þessi ofursveit ferðast niður á yfirborðið þar sem lífríkið hefur bara eitt takmark, að drepa fólk. Hér eru ekki lengur neinir grasbítar hvert einasta dýr er stórhættulegt rándýr, sem ætlar sér að drepa menn (aftur gengur dæmið ekki upp). En það skiptir engu máli. Í það minnst ekki fyrir mig, því þetta er bara þannig bók.

Ég gerði mér nefnilega grein fyrir að þetta er bara afþreying. Á sama hátt og þegar ég horfi á stutta gamanþætti eða lélega vísindasagna myndir. Í báðum flokkum hef ég auðvitað líka gaman af því að horfa á gæðaefni en stundum þarf maður bara afþreyingu. Það er gott að geta slökkt á heilanum í augnablik. Að gera það í lestri og áhorfi er þúsund sinnum betra en að fara á Facebook, því samfélagsmiðar hjálpa okkur engan vegin að hvílast. Þeir eiga meira sameiginlegt með spilakössum en afþreyingu. Gefa okkur dópamínskammt en ekki hvíld. Bækur og sjónvarp hjálpa okkur aftur á móti að slaka á (sumir vilja meira að segja meina að sjónvarp geri það of vel). Það er því ekkert að því að finna sér afþreyingu, líka í bókmenntum. Sama hvort það sé spennusögur Arnaldar, Fifty Shades of Grey eða í mínu tilviki Hell Divers. Við getum ekki alltaf lesið hábókmenntur enda eru sumar þeirra alveg hrútleiðinlegar. Margir aðrir hafa þegar uppgötvað hið sama, því þó að fáir viti af því, þá eru ástarsögur (e. romance) eru fimmtíu prósent af öllum seldum skáldskap (e. fiction) í Bandaríkjunum. Ástarsögur eru yfirleitt ekki minn tebolli en frábært hvað margir hafa gaman af því að lesa þær.

Varðandi Hell Divers seríuna þá get ég ekki sagt að bækurnar hafi verið mjög innihaldsríkar en þær voru spennandi og það var gaman að sjá hverju höfundurinn fann upp á næst. Mér skilst að bók númer átta hafi komið út í ár en eftir sjö bindi var ég góður. Ég veit að þetta mun halda áfram að eilífu og nú var það bara komið gott. Því alveg eins og þegar maður hefur gott af því að lesa afþreyingarbókmenntir þá er gott að vita hvenær maður á að hætta og þetta á við um allar bækur. Nota bene er þetta atriði er nokkuð sem ég á mjög erfitt með sjálfur. Ef þú ert ekki að njóta lestursins, hvort sem það er eftir fimmtíu blaðsíður, hundrað eða sjö bækur þá er allt í lagi að hættu. Við erum hvort eð er einungis að lesa fyrir okkur sjálf og ekkert er verra en að leyfa sömu leiðindarbókinni að sitja ólessinni á náttborðinu svo vikum eða jafnvel mánuðum skipti. Ég held til dæmis að The Terror eftir Dan Simmons hafi setið á mínu náttborði í rúmt ár áður en ég sagði þetta er gott og lét hana bara aftur upp í hillu.

Bestu vísindasmásögur allra tíma: Nightwings

Written by admin

Ég hlustaði nýlega á nóvelluna Nightwings eftir Robert Silverberg. Hún er í grunninn ævintýri sem er sett í vísindasagna búning með álfum um umbreytingum (e. shapeshifters). Sú útgáfa sem ég las var skáldsagan Nightwings sem er samsett úr þremur nóvellum; Nightwings (1968), Perris Way (1968) og To Jorslem (1969). Sögurnar þrjár mynda eina heild þó augljóst sé hvar ein endar og sú næsta byrjar.

Fyrsta sagan, Nightwings, fjallar um ferð þriggja einstaklinga til Rómar (Rum/Rúmar), samskipti þeirra og stöðu í samfélaginu. Sögursviðið er fjarlægð framtíð þar sem hnignun mannkyns hefur átt sér stað. Þetta er þó langt því að vera eins og í Mad Max. Í staðinn ferðast lesandinn til eins konar miðaldarsamfélgas sem er litað af framtíðartækni. Persónur eru settar í stéttir sem skilgreina hlutverk þeirra og stöðu í samfélaginu. Aðalsöguhetjan er sjáandi en hlutverk þeirra er að fylgist með himnunum í leit að vísbendingum fyrir væntanlega geimveruinnrás. Annar ferðalangur er ung stúlka sem er með vængi en hún getur aðeins notað þá á nóttunni (þaðan kemur titillinn) og þriðji ferðalagnurinn er umbreytingur en litið er á þá sem annars flokks samfélagsþegna og þeir oftast útskúfaðir.

Sagan er ekki stutt en býr til frumlegan framtíðarheim. Ég myndi halda að A Canticle for Leibowitz (1959) eftir Walter M. Miller hafi haft áhrif á Silverberg. Þó sögurnar séu mjög ólíkar, önnur er drama en hin farsi/kómedía þá er ákveðið líkt með uppsetningu hnignunarsamfélagsins. Þetta er alls ekki ólíklegt enda hefur Silverberg verið hluti aðdáendasamfélagi (e. fan community) vísindasagna í áratugi. Hann fór á sitt fyrsta Worldcon á sjötta áratug síðustu aldar og hefur reynt að mæta á hverja einustu hátíð síðan þá. Ég var svo einstaklega heppinn að fá heyra hann tala um sögu vísindaskáldskapar bæði í London (2013) og í Helsinki (2018). Sagan hans er nokkuð merkilega en hann hóf feril sinn aðdáendi en varð svo með tímanum einn af áhrifamestu vísindasagnahöfundum allra tíma.

Stéttarskipting Nightwings og hið miðaldarlega framtíðarsamfélag minnir líka eilítið á heim borðspilsins Warhammer 40,000. Ég velti fyrir mér hvort hugmyndasmiðir Games Workshop hafi ekki lesið Silverberg. Þó það sé margt ólík er margt svipað; stéttir (e.guilds), vélþjónar (e. servitors), heilakrukkur (e. brain jars), bæði sækja mikið til Rómaveldis og báðar sögurnar gerast fjörutíu þúsund ár í framtíðinni. Ég velti líka fyrir mér hvort að Gene Wolf hafi sótt innblástur í Nightwings þegar hann skirfaði Book of the New Sun en ég ekki séð það staðfest.

Nightwings er sjálfstæð nóvella en hefur eins og áður sagði tvö framhöld. Hún getur þó vel staðið sjálfstæð en það kæmi mér mikið á óvart ef lesandi myndi ekki glugga í framhaldið eftir að hafa lokið við fyrstu söguna. Perris Way (1968) fjallar um ferðalag sjáandans til París (Perrís/Perris) með prins Rúmar og To Jorslem (1969) fjallar um ferðalag hans til Jerúsalem (Jorslem) með morðingja. Báðar sögurnar bæta heilmiklu við heiminn og gera söguna heildstæðari. Síðasta saga þjáist þó í bláendan af leiðindar sagnaminni sem er líklega barn síns tíma.

Nightwings var gefin út í September 1968 í Galaxy Magazine. Hún vann Hugo verðlaunin sem besta nóvellan árið 1969 og var útnefnd árið 1968 í sama flokki til Nebula verðlaunanna. Hún var aðlöguð sem myndasaga hjá DC Science Fiction árið 1985. Skáldsagan Nightwings er aðgengilega á Storytel og ég mæli eindregið með henni.

Bestu Vísindaskáldsögur 19. aldarinnar: Tímavélin

Written by admin

Tímavélin eftir H.G. Wells var gefin út árið 1895 og er eitt af tímamótaverkum vísindaskáldsagna. Sagan er nokkuð stutt og mætti jafnvel frekar kalla nóvellu en skáldsögu. Það gera hana þó auðvitað ekkert síðri enda einstaklega skemmtileg og langt á undan sinni samtíð.

Bókin er rammasaga og fjallar um mann sem heldur matarboð. Maðurinn er aldrei nefndur á nafn og yfirleitt kallaður tímaferðalangurinn þegar verið er að fjalla um bókina. Hann segir gestunum frá tímaferðalögum sínum til fjarlægðar framtíðar ársins 802,701. Þar hefur mannkynið hefur þróast í tvær ólíkar tegundir Eloja og Morloka. Elojar eru afkomendur hástéttarinnar. Þeir lifa í vellistinum en hafa einn ótta Morloka. Þeir eru vitgrannir og nánast saklausir. Morlokarnir eru aftur á móti afkomendur lágstéttarinnar sem þurftu að dúsa öldum saman í verksmiðjum í iðrum jarðar. Þar hafa þeir breyst í skrímsli sem eiga lítið skilið við menn lengur og éta Elojana. Tímaferðalangurinn tekur sér stöðu með Elojunum og þarf að berjast við Morlokana. Ímyndunarafl Wells virðist nánast endalaust, því bókin er mjög frumleg sérstaklega þar þegar tekið er mið af því að hún var skrifuð fyrir aldamótin 1900. Enska útgáfan er aðgengileg á netinu þar sem bókin er utan höfundaréttar.

Tímavélina kom út í íslenskri þýðingu Magnús Jónssonar frá 1967. Merkilegt er frá því að segja að á kápunni var notuð mynd af geimskipi úr bíómyndinni Innrásin frá Mars (1953). Ég þessa útgáfu hana í bókaskápnum hjá ömmu minni og hef verið sirka sjö ára. Bróðir minn sagði mér lauslega frá söguþræðinum og ég var bergnuminn. Að vísu ímyndaði ég mér Molokana sem risavaxna orma, þannig að eitthvað hefur farið úrskeiðis í frásögninni, enda á bróðir minn það til að ýkja. Ég var skiljanlega spenntur að lesa bókina en mér sagt að hún væri flókin og ég þyrfti að bíða í nokkur ár áður en ég myndi leggja í hana. Árin urðu ansi mög en að lokum las ég þessa sömu íslensku útgáfu þegar ég var farinn að nálgast þrítugt. Það breytir því ekki að bókin er að mínu mati frábær. Hún hafði það mikil áhrif á mig að mörgum árum síðar samdi ég lag um söguna (sem má finna hér).

Wells hefur stundum verið kallaður faðir vísindaskáldskapar en það er ekki alveg réttnefni því að Verne varð fyrri til skrifa vísindaskáldskap og Shelley skrifaði Frankenstein áður en Verne og Wells fæddust. Wells er samt alger risi í sögu vísindaskáldskapar og bjó til mörg sagnaminni sem eru enn mikið notuð í dag. Geimveruinnrásin (Innrásin frá Mars), tímaferðalög (Tímavélin), tækniútópíur (The Shape of Things to come), genatilraunir (The Island of Doctor Moreau) og margt fleira. Án hans væri vísindaskáldskapur ansi ólíkur því sem við þekkjum í dag. Tímavélin var fyrsta skáldsaga Wells en hann var einungis 29 ára þegar hún kom út. Wells hafði sterkar stjórnmálaskoðanir og aðhylltist sósíalisma sem má sjá í verkum hans, til dæmis í stéttaskiptingu framtíðasamfélagsins í Tímavélinni.

Bókin hefur verið kvikmynduð fjórum sinnum; sjónvarpsleikrit árið 1949, stórmynd með Rod Taylor árið 1960, sjónvarpsmynd frá 1978 og önnur stórmynd að þessu sinni með Guy Pearce árið 2002 en sú var leikstýrð af barnabarni Wells. Af þessum fjórum hafa stórmyndirnar vakið mesta eftirtekt og sú frá 1960 þykir klassík þó hún sé barn síns tíma. Hún er stutt og það er þess virði að kíkja á. Margir hafa væntanlega séð myndina frá 2002, sjálfur sá ég hana í bíó. Hún var að mínu mati vonbrigði þó hún hafi sinn sjarma.

Sagan hefur einnig verið aðlöguð á sviði og í útvarpi. Einnig hefur tímaferðalangur Wells verið gestur eða aðalhetja í öðrum verkum. Time after time er kvikmynd frá árinu 1979 þar sem aðalsögupersónan er Wells og er hann jafnframt settur í hlutverk tímaferðalangsins. Hann ferðast til samtíma myndarinnar þar sem hann þarf að kljást við Kobba kviðrista (e. Jack the Ripper). Útgáfa af tímaferðalanginum var einnig í stökum þáttum af Doctor Who, Lois & Clark: The New Adventures of Superman og kvenkyns tímaferðalangur var í sjónvarpsþáttunum Warehouse-13. Dæmin eru fleiri en ég læt þessa upptalningu duga. Flestir þessara tímaferðalanga eru samnafnar H.G. Wells.

Aðrir höfundar hafa svo prófað að skrifa framhald af Tímavélinni og samkvæmt Wikipedia eru þau í það minnsta átján. Af þeim held ég að The Time Ships eftir Stephen Baxter sé þekktust en hún var skrifuð árið 1995 og samþykkt af dánarbúi Wells.

Tímavélin er alveg einstaklega skemmtilega bók sem ég mæli með fyrir alla. Hún var nánast lygilega langt á undan sinni samtíð og bjóð til heilan undirflokk (e. sub-genre) í vísindaskáldsögum, þ.e. tímaferðalagssöguna. Hún er ein af þeim bókum sem ég mæli 100% með.