Monthly Archives: April 2021

Sci-Fi top 100 #1: Ender’s Game

Written by admin

Eins og sagði frá í færslunni um Dune þá er áætlunin að skrifa nokkra pistla um bækurnar á þessum lista. Ég hef lesið nánast allar og sumar oftar en einu sinni og stefnan er að taka ein bók fyrir í hveri viku. Næsta bók sem ég ætla að fjalla um er Ender’s Game, sem er ein umdeildasta vísindaskáldsaga allra tíma, skiljanlega, en hún er jafnframt í fyrsta sæti listans (og er nb í fyrsta sæti á mörgum listum yfir SFF bækur).

Ég ætla að byrja að ræða söguna og svo færa sig yfir í umdeildu atriðin. Ég las Ender’s Game rétt eftir aldamótin. Ég var staddur í Flórída og skellti ég mér í bókabúðina Barnes & Nobel. Innan um endalausa bókarekka fann ég bókarkápu með geimskipi og fyrir ofan voru tvær stjörnur sem tilgreindu að bókin hefði unnið bæði Hugo og Nebula verðlaunin. Á þeim tíma hafði ég heyrt um bæði verðlaunin en vissi lítið um þau. Þar sem búið var að skella þessu á kápunni á áberandi stað áleit ég að þetta væri gæðastimpill sem reyndist raunin því hafði ótrúlega gaman af bókinni sem var auðlesin og spennandi. Eftir þetta leitaði ég uppi bækur sem höfðu unnið verðlaunin og fann oft algera gimsteina.

Ender’s Game fjallar í stuttu máli um Ender Wiggin, sex ára dreng sem er sendur í herþjálfumbúðir. Herir heimsins hafa ákveðið að þjálfa börn í von um að finna hernaðarsnilling sem getur bjargað mannkyninu frá geimverum. Geimverurnar hafa þegar ráðist á Jörðina og sú orrusta vannst með naumindum. Við fylgjum Ender í gegnum þjálfunina sem á sér stað í sporbaug svo börnin þar öðlist betri skilning á þrívíddar hernaðaraðgerðum en það er nauðsynlegt þegar geimorrustur eru annars vegar. Bókin sækir því í vísindaskáldsagnaarfleið bóka eins og Starship Troopers og The Forever War.

Samkvæmt höfundi þá var aldei áætlun hans að skrifa Ender’s Game. Upphaflega ætlaði hann að skrifa bók sem síðar varð Ender’s Game og heitir The Speaker of the Dead. Forsaga aðalsöguhetjunnar í Speaker of the Dead var svo flókin að höfundurinn ákvað að koma henni til skila í smásögu. Smásaga varð vinsæl og höfundurinn ákvað að gera úr henni heila bók sem varð bókin Ender’s Game sem var gefin út 1985. Hún hefur verið mjög áhrifamikil og vinsæl og er meðal annars skildulesning í sumum herdeildum bandaríska hersins. Bókin var kvikmynduð árið 2013 en sú mynd var eitt af stærstu floppum ársins og tapaði kvikmyndaframleiðandinn næstum 70 milljón dollurum.

En þegar fjallað er um Ender´s Game þarf að ræða nokkur einstaklega neikvæð atriði. Í fyrsta lagi er höfundur bókarinnar Orson Scott Card á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Snemma á tíunda áratugnum skrifaði hann ritgerð þar sem hann mælti með því að samkynhneigð yrði bönnuð, hann hefur einnig stutt auglýsingaherferðir og stjórnmálamenn fjárhagslega sem berjast gegn samkynhneigð og/eða hjónaböndum samkynhneigðra. Eftir að ég komst af þessu set ég alltaf fyrirvara þegar Card er annars vegar. Ef fólk vill kaupa verk hans er betra að leita í fornbókabúðum eða hreinlega stela þeim af netinu, því annars er möguleiki á að maður sé beint að styðja fjárhagslega við einstaklega slæma málstaði. En jafnframt ætla ég ekki að dæma þá sem elska bækur Card og skil vel að þeim finnist þær skemmtilegar.

Annað sem er rétt að nefna eru þemun í Ender’s Game. Bókin er vissulega skemmtileg og auðlesin en ef maður fer að rýni í textann er hægt að túlka hann á neikvæðan hátt. Ender fremur fleiri en eitt morð/manndráp sem reynt er að réttlæta, jafnvel þó að fórnarlömbin séu börn. Hefnd, ofbeldi og þjóðarmorð eru allt hlutir sem börn þurfa að takast á við í bókinni og fullorðna fólkið réttlætir það því hættan af geimverunum er svo mikil.

Ender’s Game er sérstök bók sem erfitt er að mæla með sökum Card en jafnframt er hún stólpi í sögu vísindaskáldsagna.

Silfurfossar væntanleg 17. maí 2021

Written by admin

Í dag ætlaði ég að pósta bloggi um aðra vísindaskáldsögu en ákvað að fresta því þar sem mín næsta skáldsaga Silfurfossar er komin í væntanlegt hjá Storytel! Bókin verður aðgengileg til hlustunnar 17 maí. en á sama dagi árið 1980 (fæðingar árið mitt) var Empire Strikes Back frumsýnd í Bandaríkjunum.

Vísindaskáldsagan Silfurfossar er þriðja skáldsagan mín en bókin verður einungis fáanleg hjá Storytel þar sem hún var verkefni sem ég vann fyrir þau. Ég hlakka mikið til að deila bókinni með ykkur og vona að sem flestir hafi tækifæri til að hlusta. Þau ykkar sem eruð áhugasöm og eruð með áskrift hjá Storytel getið ýtt á hjartað og þannig vistað Silfurfossa í bókahillunni ykkar.

Hérna er eilítið um bókina: Árið 2067 taka glæparannsóknir skamman tíma vegna tæknilegra framfara. Kári er nýliði í lögreglunni á Hvolsvelli og starfið er fremur tilbreytingarsnautt. Það breytist þegar hann gengur óvænt inn á vettvang morðs á býlinu Silfurfossum. Morðingjanum virðist hafa tekist að afmá stafræn fótspor sín. Hin gamalreynda Árný verður bandamaður Kára í rannsókninni og saman komast þau að því að ekki er allt sem sýnist, hvorki hjá heimilisfólki né hjá vélmennunum sem á býlinu starfa. Válynd veður loka þau af á Silfurfossum og Kári og Árný lenda í kapphlaupi í tímann við að leysa málið.

Fyrir þá sem hafa áhuga á skrifum þá get ég sagt að þetta hefur verið langt og strangt ferli sem byrjaði fyrir ári síðan. Upphaflega átti bókin að koma út í október í fyrra en það var algert vanmat að minni hálfu. Hver hefði getað ímyndað sér að það er heilmikil vinna að skrifa bók, verka í fullri vinnu, reka heimili með Guðrúnu og hlýða skipunum tveggja ára stúlku! 😄 Verkið hafðist þó að lokum með frábærri aðstoð frá góðu fólki. Ég er spenntur að sjá hvað ykkur finnst og vona að þið hafið gaman af lestrinum/hlustuninni.

Vélmenni og tölvutónar

Written by admin

Mig langaði að skrifa nokkra pistla um plötur sem höfðu áhrif á mig í gegnum tíðina. Hér er sá fyrsti.

Fimm ára gamall sat ég í gula flauels sjónvarpssófa heimilisins og starði á dautt túbusjónvarpið. Árði var 1985 og mér leiddist. Á þannig stundum varð maður að finna sér eitthvað að gera en ég hafði ákveðið að gera ekkert og starði vongóður á sjónvarpið í von um að skjárinn myndiskyndilega kveikna til lífsins í formi He-Man teiknimynda. Þær voru í miklu uppáhaldi og að mínu mati alltof sjaldan í boði. En á skjánum var einungis spegilmynd af sjálfum mér að láta sér leiðast.

Sjálvirki bílskúrshurðaropnarinn byrjaði að urra. Þar sem ég hefði ekkert betra að gáði ég hver var að koma heim. Ladan Sport jeppinn hans pabba rann inn í bílskúrinn og ég vinkaði hæ. Þennan laugardagsmorgun hafði pabbi verið á bæjum sem var alls ekki óvenjulegt. Mamma sagði að hann væri vís til að koma við á Slefossi þegar hann ætlaði að kaupa mjólk í Melabúðinni. Hann steig út úr bílnum og tróð sér meðfram bílnum. Ég stóð enn í dyragættinni á bílskúrnum.

„Halló, elsku karlinn minn,“ sagði pabbi. „Hvað ertu að gera?“

„Æj, bara,“ svaraði ég og reyndi að fela aðgerðaleysi dagsins.

Við vorum á leiðinni upp í eldhús þegar hann sagði: „Heyrðu, eigum við ekki að spila?“

Mér leist mjög vel á það enda mikill aðdáendi borðspila og varð mjög spenntur. Hvað hafði pabbi eiginlega keypt? Slönguspilið eða ferðatafl eða kannski myllu. Ég elti hann að bílskottinu og vonaði innilega að þetta væri ekki Ludo sem ég átti þegar. Pabbi opnaði skottið og tók upp mjög þunnan poka. Ég áttaði mig strax á að þetta var ekki borðspil heldur vínilplata og vonbrigðin helstust yfir mig. Átti ég nú að fara að láta mér leiðast fyrir framan plötuspilarann í staðinn fyrir sjónvarpið. Það var nú ekki mikill munur þar á. Ég vildi samt ekki vera leiðinlegur og þóttist enn vera spenntur.

Við feðgarnir fórum því saman inn í stofu og pabbi tók plötuna út pokanum. Umslagið var rautt og framan á því stóðu fjórir dökkhærðir menn í rauðum skyrtum með svört bindi. Litaskemað var sérstakt en ég hafði séð það áður. Eldri bróðir minn átti nefnilega sömu plötu en ég var ekkert að nefna það. Ég skoðaði því umslagið gaumgæfilega á meðan pabbi setti plötuna á fóninn. Stuttu síðar byrjuðu undarleg tölvuhljóð að óma um stofuna. Hljómborðstef bættist við og síðan kom söngurinn sem var öðruvísi en ég hafði áður heyrt. Þarna var þýska hljómsveitin Kraftwerk að syngja á ensku. Pabbi hafði ekki keypt upprunalegu útgáfuna, sem heitir Die Mensch Maschine, heldur ensku útgáfuna: The Man Machine. Ég kunni ekkert í þýsku en eftir að hafa horft á óteljandi klukkutíma af He-Man og öðru eins þá skildi ég heilmikið í ensku og fannst mjög forvitnilegt að heyra lag um vélmennin (We are the Robots). Eftir á að hyggja var ekki mjög menningarlegt af mér að hygla ensku útgáfunni en ég var bara fimm ára og hafði takmarkaðan áhuga á menningu.

Það er því þess vegna sem að The Man Machine skipar meiri sess í tónlistarsögunni minni en upprunalega þýska útgáfan. Ekki að það skipti mála þær eru báðar frábærar. Öll lögin á plötunni standast tímans tönn. Upphafslagið, sem er eins og áður sagði We are the Robots, er stórkostleg byrjun og mig grunar að þarna hafi fyrstu fræjunum verið sáð sem urðu síðar að óbilandi áhuga á öllu sem tengdist sci-fi. Fyrsta lagið á B-hliðinni, The Model, er poppaðra en hin lögin en Rammstein gerði eftirminnilega ábreiðu af því lagi. Fimmta lag plötunnar, Neon Lights, er enn einn slagarinn og oft nokkuð vanmetið í samanburði við hin tvö.

The Man Machine (eða Die Mensch Maschine ) er fyrsta platan sem ég virkilega hlustaði á. Ég var alveg heillaður af lögunum og þessum undarlegu hljóðum sem voru svo ólík öllu sem maður heyrði í popptónlistinni á Rás 2. Ég tengi The Man Macine við að skoða stríðspilin sem eldri bróðir minn spilaði við vini sína. Ég sat við hliðina á spilaborðinu og starði á Evrópukortið og lagði á minnið öll landamærin og höfuðborgirnar.

Fleiri plötur með Kraftwerk voru til á heimilinu eins og Autobahn og Tour De France. Þessi góða raftónlsitarbyrjun á tónlistarferlinum hefði átt að bjarga mér frá hinum drungalegum strætum poppsins en gerði það því miður ekki. Næst verður nefnilega farið í fyrsta pop idolið mitt.

Sci-Fi top 100 #2: Dune

Written by admin

Mig langaði að skrifa aðeins um 100 bestu Sci-Fi bækur 20. aldarinnar. Ég byrja ekki á bókinni í fyrsta sæti en mun skrifa um hana næst. Ég vona að og þetta og önnur verkefni haldi mér við efnið að blogga aðeins annað slagið. Líka gaman að rifja upp fortíðina með þessum bókum, þ.e. hvar og hvenær þær voru lesnar. Sumar mun ég lesa aftur en aðrar mun ég bara rifja upp eftir minni. Sumar eru frábærar og aðrar náði ekki til mín. En hvað um það, hér er stutt umfjöllun um Dune sem situr í örðu sæti á listanum.

Nýlega las ég aftur Dune eftir Frank Herbert. Upphaflega ætlaði ég að bíða eftir nýju íslensku þýðingunni sem er væntanleg frá Partus en sökum Covid er vesen að fá póstsendingar til Kaupmannahafnar og tollurinn dýr. Auk þess eru fáir á ferðinni og því erfitt að dobbla fólk til að grípa með sér eintak (mér skilst líka að útgáfunni hafi verið frestað). Ég ákvað því að hlusta á hana og var mjög ánægður með framleiðsluna. Margir lesarar ljá persónunum raddir sínar sem gerir þetta einstaklega líflega og flotta aðlögun.

Ég las Dune (eða Dúnu eins og hún heitir á íslensku) fyrst 1993. Þrettán ára gamall fann ég einfaldaða útgáfu af bókinni á Borgarbókasafninu sem var þá við Þingholtsstræti. Ég man mjög vel eftir hvíta snúingsrekkanum sem lítið fór fyrir. Bókasafnsfræðingurinn aðstoði okkur mömmu og benti bæði á Dune og Brave New World sem voru báðar algerir fjársjóðir. Þetta var hluti af verkefni í ensku og ég skrifaði ritgerð um Dune sem er enn til einhvers staðar heima hjá mömmu. Bókin hafði mikil áhrif mig og hefur fylgt mér í gegnum ævina. Ég las hana síðar í lengri útgáfu rétt eftir aldamót og hef séð allar fjórar myndirnar: Dune (1984), míníseríuna Dune (2000), framhald hennar Children of Dune (2003) og svo loks heimildarmyndina Jodorowsky’s Dune (2013). Spilaði meira að segja tölvuleikinn Dune 2000. Hið merkilega er að ég leitaði þessar myndir og tölvuleiki sjaldnast uppi en fann það samt. Það var því fyrir nokkrum árum að ég ákvað lesa framhöldin; Dune Messiah og Children of Dune. Sú fyrri heillaði mig ekki en sú seinni var fín. Kannski legg ég í fleiri framhöld síðar.

Árin 1963-65 gaf Frank Herbert út þrjár framhaldssögur úr heimi Dune í tímaritinu Analog og urðu þessar þrjár sögur að skáldsögunni Dune. Ekki gekk allt þó vel því að skáldsagan Dune sem kom út árið 1965 og var þá gefin út af Charlton Books sem var þá mest þekkt fyrir að gefa út bæklinga og fræðibækur. Það var á brattan að sækja til að byrja með en sagan um Paul Atreides heillað marga og hefur gert það síðan. Margir segja að heimssköpun Herbert sé þar að þakka en á þeim tíma var einungis Tolkien sem hafði náð sambærilegum árangri á því sviði. Bókin þótti því vera alger bylting á sviði vísindaskáldsagna og er best selda bókin í þeim flokki (enn í dag).

Ég er því nokkuð spenntur fyrir nýju myndinni og sömuleiðis svekktur að henni hafi verið frestað. Þetta kom að vísu ekki á óvart sökum Covid ástandsins en ég er jafnframt uggandi yfir þessu.

Almennt virðist vera mikil eftirvænting fyrir Dune (2020) en spurning hvort hún muni vera enn til staðar eftir ár. Þó að stiklan hafi verið flott þá er spurning hvort hún haldi hinum almenna aðdáenda heitum. Sérstaklega þar sem margir þeirra virðast ekki hafa hrifist af henni. Í það minnst fannst konunni minni afskaplega lítið til stiklunar koma. Nennti ekki einu sinni að lesa bókina þrátt fyrir mikinn þrýsting og meðmæli frá mér.

Ég er samt spenntur og get ekki annað en mælt með bókinni. Sagan er flókin en jafnframt mjög aðgengilegt. Nokkuð sem virkar kannski sem mótsögn en er heilmikið afrek hjá höfundinum. Líklega má þakka alvitra sögumanninum sem gefur okkur innsýn inn í huga allra. Ef þið hafið ekki lesið Dune þá mæli ég með að þið gefið henni séns og ef þið hafið lesið hana þá má alltaf lesa hana aftur.