Monthly Archives: December 2013

Hrafnsauga

Written by admin

Þrátt fyrir að Íslendingar eigi ríka ævintýrahefð er afskaplega lítið af íslenskum skáldvekum til sem sækja í sagnahefð rithöfunda eins og J.R.R. Tolkien, Ursula K LeGuin eða George R. R. Martin. Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson er metnaðarfull saga sem reynir að bæta úr þessu. Sagan býr til nýjan heim þar sem ýmiskonar furðuverur búa og leiðir lesandan ævintýralegt ferðalag. Þessi metnaðarfulla bók er þörf viðbót í íslenskan menningararf og býður upp á ferskan blæ sem hefur ekki áður verið til nema í þýðingum á verkum Tolkiens. Hún kom út fyrir jólin 2012 en síðan þá hefur framhald hennar Draumsverð og bókin Vargsöld, sem er í svipaðri sagnahefð, einnig komið út. 

Í upphafi bókarinnar kynnumst við nokkrum unglingum af þjóðflokki Jana sem er þrýst út í spennandi atburðarás eftir að skrímsli ráðast á þorpið þeirra. Eftir það leggja söguhetjurnar, sem eru eltar af útsendurum hins illa, upp í ferðalag og bera meiri ábyrgð en nokkurt þeirra órar fyrir. Ég var alveg sérstaklega heillaður af illu öflunum í þessari bók og bíð spenntur að kynnast þeim enn frekar.

Fyrsta sem mig langar að nefna varðandi Hrafnsauga er hve vel skrifuð hún er. Ég tók aldrei eftir því að tveir höfundar hefðu skrifað hana og textinn flæddi ljúfmannlega. Heimurinn sem búinn er til virðist vera úthugsaður og skemmtilega framsettur. Við kynnumst mátulega mikið af honum. Því býð ég spenntur eftir að lesa Draumsverð, sem kom út nýlega, til að fá enn frekar að upplifa þessa nýju veröld.

Persónurnar sem kynntar til leiks upplifa mikið í sögunni en munu líklega breytast ennþá meira þegar líður á sagnabólkinn. Helsta gagnrýni mín væri í garð þeirra því að sumar eru ekki nægilega eftirminnilegar. Þó myndi ég alls ekki segja að það komi niður á sögunni og langar til að sjá hver framtíð þeirra verður.

Sagan minnti mig stundum á Eye of the World, sem er fyrsta bókin í sagnabálki Robert Kordan Wheel of Time. Þessi samanburður er hrós í garð höfunda þar sem þeim tekst að búa til heim og sögu sem hægt er að bera saman við bestu ævintýrarithöfunda. Ég mæli eindregið með henni og ef ykkur vantar jólagjöf fyrir unnanda furðusagna þá er Hrafnsauga tvímannalaust bókin sem þið eruð að leita að. Ég gef bókinni fjórar og hálfa stjörnu af fimm.