Category Archives: Skáldsögur

Silfurfossar væntanleg 17. maí 2021

Written by admin

Í dag ætlaði ég að pósta bloggi um aðra vísindaskáldsögu en ákvað að fresta því þar sem mín næsta skáldsaga Silfurfossar er komin í væntanlegt hjá Storytel! Bókin verður aðgengileg til hlustunnar 17 maí. en á sama dagi árið 1980 (fæðingar árið mitt) var Empire Strikes Back frumsýnd í Bandaríkjunum.

Vísindaskáldsagan Silfurfossar er þriðja skáldsagan mín en bókin verður einungis fáanleg hjá Storytel þar sem hún var verkefni sem ég vann fyrir þau. Ég hlakka mikið til að deila bókinni með ykkur og vona að sem flestir hafi tækifæri til að hlusta. Þau ykkar sem eruð áhugasöm og eruð með áskrift hjá Storytel getið ýtt á hjartað og þannig vistað Silfurfossa í bókahillunni ykkar.

Hérna er eilítið um bókina: Árið 2067 taka glæparannsóknir skamman tíma vegna tæknilegra framfara. Kári er nýliði í lögreglunni á Hvolsvelli og starfið er fremur tilbreytingarsnautt. Það breytist þegar hann gengur óvænt inn á vettvang morðs á býlinu Silfurfossum. Morðingjanum virðist hafa tekist að afmá stafræn fótspor sín. Hin gamalreynda Árný verður bandamaður Kára í rannsókninni og saman komast þau að því að ekki er allt sem sýnist, hvorki hjá heimilisfólki né hjá vélmennunum sem á býlinu starfa. Válynd veður loka þau af á Silfurfossum og Kári og Árný lenda í kapphlaupi í tímann við að leysa málið.

Fyrir þá sem hafa áhuga á skrifum þá get ég sagt að þetta hefur verið langt og strangt ferli sem byrjaði fyrir ári síðan. Upphaflega átti bókin að koma út í október í fyrra en það var algert vanmat að minni hálfu. Hver hefði getað ímyndað sér að það er heilmikil vinna að skrifa bók, verka í fullri vinnu, reka heimili með Guðrúnu og hlýða skipunum tveggja ára stúlku! 😄 Verkið hafðist þó að lokum með frábærri aðstoð frá góðu fólki. Ég er spenntur að sjá hvað ykkur finnst og vona að þið hafið gaman af lestrinum/hlustuninni.