Category Archives: Tónlistarsaga mín

Vélmenni og tölvutónar

Written by admin

Mig langaði að skrifa nokkra pistla um plötur sem höfðu áhrif á mig í gegnum tíðina. Hér er sá fyrsti.

Fimm ára gamall sat ég í gula flauels sjónvarpssófa heimilisins og starði á dautt túbusjónvarpið. Árði var 1985 og mér leiddist. Á þannig stundum varð maður að finna sér eitthvað að gera en ég hafði ákveðið að gera ekkert og starði vongóður á sjónvarpið í von um að skjárinn myndiskyndilega kveikna til lífsins í formi He-Man teiknimynda. Þær voru í miklu uppáhaldi og að mínu mati alltof sjaldan í boði. En á skjánum var einungis spegilmynd af sjálfum mér að láta sér leiðast.

Sjálvirki bílskúrshurðaropnarinn byrjaði að urra. Þar sem ég hefði ekkert betra að gáði ég hver var að koma heim. Ladan Sport jeppinn hans pabba rann inn í bílskúrinn og ég vinkaði hæ. Þennan laugardagsmorgun hafði pabbi verið á bæjum sem var alls ekki óvenjulegt. Mamma sagði að hann væri vís til að koma við á Slefossi þegar hann ætlaði að kaupa mjólk í Melabúðinni. Hann steig út úr bílnum og tróð sér meðfram bílnum. Ég stóð enn í dyragættinni á bílskúrnum.

„Halló, elsku karlinn minn,“ sagði pabbi. „Hvað ertu að gera?“

„Æj, bara,“ svaraði ég og reyndi að fela aðgerðaleysi dagsins.

Við vorum á leiðinni upp í eldhús þegar hann sagði: „Heyrðu, eigum við ekki að spila?“

Mér leist mjög vel á það enda mikill aðdáendi borðspila og varð mjög spenntur. Hvað hafði pabbi eiginlega keypt? Slönguspilið eða ferðatafl eða kannski myllu. Ég elti hann að bílskottinu og vonaði innilega að þetta væri ekki Ludo sem ég átti þegar. Pabbi opnaði skottið og tók upp mjög þunnan poka. Ég áttaði mig strax á að þetta var ekki borðspil heldur vínilplata og vonbrigðin helstust yfir mig. Átti ég nú að fara að láta mér leiðast fyrir framan plötuspilarann í staðinn fyrir sjónvarpið. Það var nú ekki mikill munur þar á. Ég vildi samt ekki vera leiðinlegur og þóttist enn vera spenntur.

Við feðgarnir fórum því saman inn í stofu og pabbi tók plötuna út pokanum. Umslagið var rautt og framan á því stóðu fjórir dökkhærðir menn í rauðum skyrtum með svört bindi. Litaskemað var sérstakt en ég hafði séð það áður. Eldri bróðir minn átti nefnilega sömu plötu en ég var ekkert að nefna það. Ég skoðaði því umslagið gaumgæfilega á meðan pabbi setti plötuna á fóninn. Stuttu síðar byrjuðu undarleg tölvuhljóð að óma um stofuna. Hljómborðstef bættist við og síðan kom söngurinn sem var öðruvísi en ég hafði áður heyrt. Þarna var þýska hljómsveitin Kraftwerk að syngja á ensku. Pabbi hafði ekki keypt upprunalegu útgáfuna, sem heitir Die Mensch Maschine, heldur ensku útgáfuna: The Man Machine. Ég kunni ekkert í þýsku en eftir að hafa horft á óteljandi klukkutíma af He-Man og öðru eins þá skildi ég heilmikið í ensku og fannst mjög forvitnilegt að heyra lag um vélmennin (We are the Robots). Eftir á að hyggja var ekki mjög menningarlegt af mér að hygla ensku útgáfunni en ég var bara fimm ára og hafði takmarkaðan áhuga á menningu.

Það er því þess vegna sem að The Man Machine skipar meiri sess í tónlistarsögunni minni en upprunalega þýska útgáfan. Ekki að það skipti mála þær eru báðar frábærar. Öll lögin á plötunni standast tímans tönn. Upphafslagið, sem er eins og áður sagði We are the Robots, er stórkostleg byrjun og mig grunar að þarna hafi fyrstu fræjunum verið sáð sem urðu síðar að óbilandi áhuga á öllu sem tengdist sci-fi. Fyrsta lagið á B-hliðinni, The Model, er poppaðra en hin lögin en Rammstein gerði eftirminnilega ábreiðu af því lagi. Fimmta lag plötunnar, Neon Lights, er enn einn slagarinn og oft nokkuð vanmetið í samanburði við hin tvö.

The Man Machine (eða Die Mensch Maschine ) er fyrsta platan sem ég virkilega hlustaði á. Ég var alveg heillaður af lögunum og þessum undarlegu hljóðum sem voru svo ólík öllu sem maður heyrði í popptónlistinni á Rás 2. Ég tengi The Man Macine við að skoða stríðspilin sem eldri bróðir minn spilaði við vini sína. Ég sat við hliðina á spilaborðinu og starði á Evrópukortið og lagði á minnið öll landamærin og höfuðborgirnar.

Fleiri plötur með Kraftwerk voru til á heimilinu eins og Autobahn og Tour De France. Þessi góða raftónlsitarbyrjun á tónlistarferlinum hefði átt að bjarga mér frá hinum drungalegum strætum poppsins en gerði það því miður ekki. Næst verður nefnilega farið í fyrsta pop idolið mitt.