Category Archives: Sci-fi top 100

100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #4 Fahrenheit 451

Written by admin

Fjórða bókin á listanum er Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury sem er ein af mínum uppáhaldsbókum. Ég kynntist bókinni seint á táningsaldri en á þeim tíma var ég sólginn í fréttir um kvikmyndaframleiðslu. Ég hafði alltaf haft gaman af bíómyndum og með tilkomu Internetsins var allt slúðrið frá Hollywood rétt handan við lyklaborðið. Rétt fyrir aldamótin var greint frá því að Mel Gibson ætlaði að leikstýra aðlögun á klassísku vísindaskáldsögunni Fahrenheit 451. Á þessum tíma var hann einn vinsælasti leikari heims og hafði síðast leikstýrt Braveheart árið 1995.

Fljótlega eftir þetta fór ég að sjá bókina víðs vegar í bókabúðum. Kápan var mjög áberandi með manni úr pappír sem var alelda. Á þessum tíma var ég sannfærður að kvikmyndaaðlögum jafngildi góðri bók. Ég varð mér því út um eintak og varð algerlega heillaður. Einungis Hobbitinn hefur haft meiri áhrif á mig en Fahrenheit 451. Eftir að ég hafði klárað bókina reyndi ég að leggja tilvitnanir á minnið, byrjaði að skrifa smásögur aftur eftir nokkra ára hlé og fór að lesa mun meira en áður.

Fahrenheit 451 segir frá Guy Montag sem er slökkviliðsmaður í ótilgreindu framtíðarsamfélagi. Hann starfar þó ekki við að slökkva elda heldur kveikja þá, því starf hans felst í að brenna bækur. Montag er þó ekki sannfærður um starf sitt og eykst þessi efi hans dag einn þegar hann kynnist ungri stúlku sem heitir Clarisse.

Samkvæmt Bradbury kom fyrsti neistinn að Fahrenheit 451 fram í smásögunni The Padestrian sem heitir Fótgangandinn í íslenskri þýðingu eftir Stefán Baldursson. En þá sögu skrifaði Bradbury eftir að lögreglumaður hafði afskipti af honum og vini hans í kvöldgöngu. Á þessum tíma skrifaði Bradbury að mestu smásögur sem hann seldi í svokölluð pulp tímarit. Tímaritin þóttu ekki merkilegur pappír bókstaflega þar sem þau voru prentuð á trákvoðapappír sem var ódýrari en hefðbundin bókapappír. Það er akkúrat úr þessum tímaritum þar sem svo kölluð gullöld vísindaskáldsagna á rætur sínar að rekja. Bradbury ákvað svo að vinna meira með smásöguna og kvöld eitt beygði Fótgangandinn fyrir horn þar sem hann rakst þá á unga stúlku sem hét Clarisse. Þar var komin upphafssenan í nýrri sögu sem varð talsvert lengri. Sú saga fékk nafnið The Fireman eða Slökkviliðsmaðurinn og var um 25 þúsund orð eða nóvella. Báðar þessar sögur voru skrifaðar í kjallara bókasafns í Los Angeles þar sem Bardbury gat leigt ritvél fyrir tíu cent á hálftíma. Hann varð því að nýta tímann vel og var the Fireman skrifuð á einungis níu dögum.

Báðar þessar sögur voru svo gefnar út 1951 ári eftir að Bradbury gaf út smásagnasafnið The Martian Chronicles (bein þýðing væri Annálar Marsbúanna), The Pedestrian kom út í fréttablaðinu The Reporter og The Fireman í pulp tímaritinu Galaxy Science Fiction. The Fireman var svo tæplega tvöfölduð í lengd og úr varð Fahrenheit 451 sem var gefin út í október 1953. Í mars, apríl og maí var bókin einnig gefin út sem framhaldssaga í Playboy sem var þá nýstofnað. Fahrenheit 451 var vel tekið eftir útgáfu, gekk ágætlega í sölu og seldist svo meira með hverju ári og gerir enn.

Eitt af megin þemum Fahrenheit 451 er málfrelsi. Bókabrennur eru ekki nýjar af nálinni en bókin ítrar þá hugmynd og býr til samfélag þar sem bókabrennur eru hvunndagslegur hlutur. Þrátt fyrir umfjöllunarefnið hefur Fahrenheit 451 verið bönnuð í nokkrum skólum í Bandaríkjunum og nú síðast árið 2018. Hún á því enn við í dag þrátt fyrir að vera 70 ára gömul. Annað þema í bókinni er einföldun menningar. Hvernig með tilkomu sjónvarps sé hún gerð auðmeltanlegri og auðveldara sé fyrir fólk að hafa einu og sömu skoðun. Því í heimi Fahrenheit 451 var engin ógnarstjórn sem setti á lög um bókabrennur gegn vilja samfélagsins. Það er sérstaklega tekið fram að samfélagið hafi gert sér þetta sjálft. Það má því færa rök fyrir því að bókin hafi spáð fyrir um falsfréttir og samfélagsbúbblur löngu áður en internetið kom til sögunnar.

Fahrenheit 451 er að mínu mati best af hinum þremur stóru distópíum, hinar eru 1984 og Brave New World. Hún er vel skrifuð, ljóðræn, með djúpar persónur og ólíkt hinum tveimur bókunum með sterkan söguþráð (e. plot). Hún hefur verið þýdd tvisvar á íslensku af Þórdís Bachmann árið 2019 og af Magnús Jónsson árði 1968. Hún var kvikmynduð tvisvar, árið 1966 af François Truffaut og árið 2018. Af þessum tveimur útgáfum þykir sú fyrri bera af og sú seinni vera frekar léleg. Bókin hefur einnig verið aðlöguð í útvarp, leikhús, tölvuleiki og sem teiknimyndasaga. Fahrenheit 451 er sannkölluð klassík sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

100 Bestu Vísindaskáldsögur 20 aldarinnar: #3 The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy

Written by admin

Tók talsvert lengri tíma að skrifa um þriðju bókina á listanum. Veit ekki af hverju, kannski er erfiðara að finna áhugaverðar staðreyndira um bók sem er svona stór hluti af almannavitund.

Í fyrsta ensku tímanum í menntaskóla fékk ég blað með lesefni vetrarins. Hingað til höfðu leslistar í ensku verið fullir af þurrum námsbókum eða einföldum sögum en nú var eitthvað annað upp á teningnum. Þarna voru fjórar skáldsögur og allt kunnuglegir titlar: The Great Gatsby, To Kill a Mockingbird, The Hobbit og The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy. Ég hefði heyrt um fyrstu tvær bækurnar en vissi ekki um hvað þær fjölluðu, Hobbittinn var uppáhaldsbókin mín á þessum tíma en ég var spenntastur fyrir Hitchhiker’s Guide. Tæpu ári áður hafði ég heyrt útvarpsþátt á RÁS 2 þar sem fjallaði um skáldsögu þar sem puttaferðalanga ferðuðust um vetrarbrautina með ferðahandbók. Ég hafði oft hugsað um bókina og þarna var hún komin, þessu yrði því ekki freistað lengur. Ég verð að viðurkenna að þetta var góður bókavetur.

Á miðjum vetri var The Hitchhiker’s Guide to the Galxy sett fyrir og ég renndi í gegnum hana á methraða og naut þess í botn. Þetta var nokkuð ólíkt mínum lestrarvenjum á þessum árum því vanalega var ég lengi að klára bækur. Las kannski eina eða tvær blaðsíður á kvöldi og oft ekki neitt. Ég var og ungur og of vitlaus til að gefast upp á bókum sem mér fannst leiðinlegar. The Hitchhiker’s Guide var þó allt öðruvísi og ég spólaði í gegnum bókina.

Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina, eins og hún heitir í þýðingu Kristjáns Kristmannssonar frá 1999, er skrifuð af Douglas Adams og var fyrst gefin út sem útvarpsleikrit árið 1978. Útvarpsleikritið sló í gegn og ári síðar var bókin gefin út. Þremur mánuðum síðar var búið að selja 250 þúsund eintök. Bókin var fljótt klassísk og er hægt að finna tilvísanir í hana í mörgum öðrum verkum og víða annars staðar. Til að mynda er Handklæðadagur (e. Towel day) haldinn hátíðlegur 25. maí hvert ár, víða má finna tilvísun í töluna 42 og á sporbaug um jörðu er sportbíll þar sem „Don’t Panic“ stendur skýrum stöfum á mælaborðinu.

Í fyrsta kaflanum í The Hitchhiker’s Guide to the to the Galaxy er Jörðin er sprengd í loft um og eftir það verður sagan meira absúrd með hverri blaðsíðu. Ég hef oft átt erfitt með að tengja við húmor í bókum en The Hitchhiker Guide náði algerlega til mín. Hún er sprenghlægileg, stutt, auðlesin og þræl skemmtileg. Mæli með því að að allir kíki á hana. Ég hafði þó meira gaman að lesa hana en að hlusta á hana. Mér fannst eins og að það tapaðist eitthvað í hljóðbókinni sem er skrítið ef miðað er við uppruna hennar sem útvarpsleikrits.

Bókin var aðlöguð í sjónvarp árið í Bretlandi árið 1981, gerð að stórmynd frá Hollywood árið 2005 og stefnt er að því að gera aðra sjónvarpsseríu í framtíðinni. Breska sjónvarpsserían frá 9. áratugnum þykir ódýr en góð og að sama skapi þykir Hollywood bíómyndin dýr en ekkert sérstök, þó hún hafi vissulega sinn sjarma. Þrátt fyrir allar þessar vinsældir þá var Douglas Adams haldinn mikilli frestunaráráttu og eina leiðinn sem hægt var að fá hann til að skrifa eitthvað var að keyra höfundinn upp í sveit og skilja hann einan eftir á sveitahóteli með ritvél þar sem ekkert annað var í boði. Þetta virðist hafa virkað því Adams skrifaði fjögur framhöld af bókinni og er heildar verkið oft markaðssett sem trílógía í fimm hlutum. Bækurnar eru allar stuttar, í svipuðum stíl og fyrsta bókin og lengi vel var hægt að kaupa þær allar í einum doðranti.

The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy er bók sem margir hafa lesið. Ég hef sjálfur lesið hana að minnsta kosti þrisvar en hef alltaf jafn gaman af henni.

Sci-Fi top 100 #1: Ender’s Game

Written by admin

Eins og sagði frá í færslunni um Dune þá er áætlunin að skrifa nokkra pistla um bækurnar á þessum lista. Ég hef lesið nánast allar og sumar oftar en einu sinni og stefnan er að taka ein bók fyrir í hveri viku. Næsta bók sem ég ætla að fjalla um er Ender’s Game, sem er ein umdeildasta vísindaskáldsaga allra tíma, skiljanlega, en hún er jafnframt í fyrsta sæti listans (og er nb í fyrsta sæti á mörgum listum yfir SFF bækur).

Ég ætla að byrja að ræða söguna og svo færa sig yfir í umdeildu atriðin. Ég las Ender’s Game rétt eftir aldamótin. Ég var staddur í Flórída og skellti ég mér í bókabúðina Barnes & Nobel. Innan um endalausa bókarekka fann ég bókarkápu með geimskipi og fyrir ofan voru tvær stjörnur sem tilgreindu að bókin hefði unnið bæði Hugo og Nebula verðlaunin. Á þeim tíma hafði ég heyrt um bæði verðlaunin en vissi lítið um þau. Þar sem búið var að skella þessu á kápunni á áberandi stað áleit ég að þetta væri gæðastimpill sem reyndist raunin því hafði ótrúlega gaman af bókinni sem var auðlesin og spennandi. Eftir þetta leitaði ég uppi bækur sem höfðu unnið verðlaunin og fann oft algera gimsteina.

Ender’s Game fjallar í stuttu máli um Ender Wiggin, sex ára dreng sem er sendur í herþjálfumbúðir. Herir heimsins hafa ákveðið að þjálfa börn í von um að finna hernaðarsnilling sem getur bjargað mannkyninu frá geimverum. Geimverurnar hafa þegar ráðist á Jörðina og sú orrusta vannst með naumindum. Við fylgjum Ender í gegnum þjálfunina sem á sér stað í sporbaug svo börnin þar öðlist betri skilning á þrívíddar hernaðaraðgerðum en það er nauðsynlegt þegar geimorrustur eru annars vegar. Bókin sækir því í vísindaskáldsagnaarfleið bóka eins og Starship Troopers og The Forever War.

Samkvæmt höfundi þá var aldei áætlun hans að skrifa Ender’s Game. Upphaflega ætlaði hann að skrifa bók sem síðar varð Ender’s Game og heitir The Speaker of the Dead. Forsaga aðalsöguhetjunnar í Speaker of the Dead var svo flókin að höfundurinn ákvað að koma henni til skila í smásögu. Smásaga varð vinsæl og höfundurinn ákvað að gera úr henni heila bók sem varð bókin Ender’s Game sem var gefin út 1985. Hún hefur verið mjög áhrifamikil og vinsæl og er meðal annars skildulesning í sumum herdeildum bandaríska hersins. Bókin var kvikmynduð árið 2013 en sú mynd var eitt af stærstu floppum ársins og tapaði kvikmyndaframleiðandinn næstum 70 milljón dollurum.

En þegar fjallað er um Ender´s Game þarf að ræða nokkur einstaklega neikvæð atriði. Í fyrsta lagi er höfundur bókarinnar Orson Scott Card á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Snemma á tíunda áratugnum skrifaði hann ritgerð þar sem hann mælti með því að samkynhneigð yrði bönnuð, hann hefur einnig stutt auglýsingaherferðir og stjórnmálamenn fjárhagslega sem berjast gegn samkynhneigð og/eða hjónaböndum samkynhneigðra. Eftir að ég komst af þessu set ég alltaf fyrirvara þegar Card er annars vegar. Ef fólk vill kaupa verk hans er betra að leita í fornbókabúðum eða hreinlega stela þeim af netinu, því annars er möguleiki á að maður sé beint að styðja fjárhagslega við einstaklega slæma málstaði. En jafnframt ætla ég ekki að dæma þá sem elska bækur Card og skil vel að þeim finnist þær skemmtilegar.

Annað sem er rétt að nefna eru þemun í Ender’s Game. Bókin er vissulega skemmtileg og auðlesin en ef maður fer að rýni í textann er hægt að túlka hann á neikvæðan hátt. Ender fremur fleiri en eitt morð/manndráp sem reynt er að réttlæta, jafnvel þó að fórnarlömbin séu börn. Hefnd, ofbeldi og þjóðarmorð eru allt hlutir sem börn þurfa að takast á við í bókinni og fullorðna fólkið réttlætir það því hættan af geimverunum er svo mikil.

Ender’s Game er sérstök bók sem erfitt er að mæla með sökum Card en jafnframt er hún stólpi í sögu vísindaskáldsagna.

Sci-Fi top 100 #2: Dune

Written by admin

Mig langaði að skrifa aðeins um 100 bestu Sci-Fi bækur 20. aldarinnar. Ég byrja ekki á bókinni í fyrsta sæti en mun skrifa um hana næst. Ég vona að og þetta og önnur verkefni haldi mér við efnið að blogga aðeins annað slagið. Líka gaman að rifja upp fortíðina með þessum bókum, þ.e. hvar og hvenær þær voru lesnar. Sumar mun ég lesa aftur en aðrar mun ég bara rifja upp eftir minni. Sumar eru frábærar og aðrar náði ekki til mín. En hvað um það, hér er stutt umfjöllun um Dune sem situr í örðu sæti á listanum.

Nýlega las ég aftur Dune eftir Frank Herbert. Upphaflega ætlaði ég að bíða eftir nýju íslensku þýðingunni sem er væntanleg frá Partus en sökum Covid er vesen að fá póstsendingar til Kaupmannahafnar og tollurinn dýr. Auk þess eru fáir á ferðinni og því erfitt að dobbla fólk til að grípa með sér eintak (mér skilst líka að útgáfunni hafi verið frestað). Ég ákvað því að hlusta á hana og var mjög ánægður með framleiðsluna. Margir lesarar ljá persónunum raddir sínar sem gerir þetta einstaklega líflega og flotta aðlögun.

Ég las Dune (eða Dúnu eins og hún heitir á íslensku) fyrst 1993. Þrettán ára gamall fann ég einfaldaða útgáfu af bókinni á Borgarbókasafninu sem var þá við Þingholtsstræti. Ég man mjög vel eftir hvíta snúingsrekkanum sem lítið fór fyrir. Bókasafnsfræðingurinn aðstoði okkur mömmu og benti bæði á Dune og Brave New World sem voru báðar algerir fjársjóðir. Þetta var hluti af verkefni í ensku og ég skrifaði ritgerð um Dune sem er enn til einhvers staðar heima hjá mömmu. Bókin hafði mikil áhrif mig og hefur fylgt mér í gegnum ævina. Ég las hana síðar í lengri útgáfu rétt eftir aldamót og hef séð allar fjórar myndirnar: Dune (1984), míníseríuna Dune (2000), framhald hennar Children of Dune (2003) og svo loks heimildarmyndina Jodorowsky’s Dune (2013). Spilaði meira að segja tölvuleikinn Dune 2000. Hið merkilega er að ég leitaði þessar myndir og tölvuleiki sjaldnast uppi en fann það samt. Það var því fyrir nokkrum árum að ég ákvað lesa framhöldin; Dune Messiah og Children of Dune. Sú fyrri heillaði mig ekki en sú seinni var fín. Kannski legg ég í fleiri framhöld síðar.

Árin 1963-65 gaf Frank Herbert út þrjár framhaldssögur úr heimi Dune í tímaritinu Analog og urðu þessar þrjár sögur að skáldsögunni Dune. Ekki gekk allt þó vel því að skáldsagan Dune sem kom út árið 1965 og var þá gefin út af Charlton Books sem var þá mest þekkt fyrir að gefa út bæklinga og fræðibækur. Það var á brattan að sækja til að byrja með en sagan um Paul Atreides heillað marga og hefur gert það síðan. Margir segja að heimssköpun Herbert sé þar að þakka en á þeim tíma var einungis Tolkien sem hafði náð sambærilegum árangri á því sviði. Bókin þótti því vera alger bylting á sviði vísindaskáldsagna og er best selda bókin í þeim flokki (enn í dag).

Ég er því nokkuð spenntur fyrir nýju myndinni og sömuleiðis svekktur að henni hafi verið frestað. Þetta kom að vísu ekki á óvart sökum Covid ástandsins en ég er jafnframt uggandi yfir þessu.

Almennt virðist vera mikil eftirvænting fyrir Dune (2020) en spurning hvort hún muni vera enn til staðar eftir ár. Þó að stiklan hafi verið flott þá er spurning hvort hún haldi hinum almenna aðdáenda heitum. Sérstaklega þar sem margir þeirra virðast ekki hafa hrifist af henni. Í það minnst fannst konunni minni afskaplega lítið til stiklunar koma. Nennti ekki einu sinni að lesa bókina þrátt fyrir mikinn þrýsting og meðmæli frá mér.

Ég er samt spenntur og get ekki annað en mælt með bókinni. Sagan er flókin en jafnframt mjög aðgengilegt. Nokkuð sem virkar kannski sem mótsögn en er heilmikið afrek hjá höfundinum. Líklega má þakka alvitra sögumanninum sem gefur okkur innsýn inn í huga allra. Ef þið hafið ekki lesið Dune þá mæli ég með að þið gefið henni séns og ef þið hafið lesið hana þá má alltaf lesa hana aftur.