Bestu vísindasmásögur allra tíma: The Ones Who Walk Away From Omelas

Written by admin

Smásagan The Ones Who Walk Away from Omelas efir Ursula K Le Guin kom út í safnritinu New Dimensions, volume 3 árið 1974. Hún er að mínu mati eitt áhrifamesta verk höfandarins sem átti hreint stórkostlegan feril og hlaut nafnbótina Grand Master of the Science Fiction Writers of America árið 2003 og var önnur konan sem fékk þann titil (sú fyrsta var Andre Norten sem hlaut titilinn árið 1984). Sagan hlaut Locus verðlaun og Hugo verðlaun fyrir bestu smásöguna árið 1974. Hún er til í íslenskri þýðingu Einars Leif Nielsen (það er ég) sem kom út í Nóvember árið 2018 í Tímaritinu Stína.

Sagan er ekki löng en hún er að mínu mati einstaklega áhrifamikil. Það er ein af ástæðum þess að ég kaus að þýða hana sjálfur. Á sínum tíma var ég að reyna að lesa meira af smásögum og hafði fundið mér lista yfir áhrifamiklar sögur. Eftir stutta internet leit fann ég þessa á YouTube og man enn hvað ég var sleginn eftir að hafa hlustað á hana. Sagan er þannig gerð að það er erfitt að fjalla um hana án þess spilla fyrir. Ég hvet því alla að lesa hana eða hlusta á. Hún er ekki löng, rétt rúmar fjórar blaðsíður eða um fimmtán mínútur (hlekkirnir geta víst hætt að virka með aldrinum).

Áhrifamikil ekki satt? The Ones Who Walk Away from Omelas er eitt skírasta dæmið um að eins manns útópía er annars distópía. Sagan hefur ekki hefðbundið form. Það er engin aðalhetja og ekkert uppgjör í lokin. Í staðinn byrjar Le Guin á því að byggja upp útópíuna en hún er skrifuð þannig að lesandinn geti dregið upp sýna eigin mynd. Til að mynda er lesandanum frjálst að ímynda sér hana tæknilega eða ekki, fyrir þá sem vilja eru hættulaus eiturlyf þá hafa það aðgengilegt og ef heimurinn er að þínu mati of sykursætur þá máttu bæta við kynsvalli. Allt er þetta gert til að við getu búið til hið fullkomna samfélag í okkar huga.

Le Guin byggir svo fallega útópíu að hún verður ótrúverðug þar til viðsnúningur sögunnar kemur í ljós og við látin horfast í augu við blóraböggulinn. Við erum tekin úr hinni fullkomnu veröld og leidd í dimmustu kytru sem fyrirfinnst í Ómelas:

Í kjallara sem er undir einhverri fallegri almenningsbyggingu í Ómelas eða ef til vill í kjallara á einhverju rúmgóðu einbýlishúsi er herbergi. Það hefur eina læsta hurða og enga glugga. Örlítið rykmettað ljós smeygir sér í gegnum glufurnar á fjölunum, það kemur notað frá köngulóarvefjum í glugga einhvers staðar í hinum enda kjallarans. …“

Þarna byrjar Le Guin að rífa niður heimsmyndina sem ríflega helmingur sögunnar fór í að lýsa. Við þurfum allt í einu að horfast í augu við kostnað á útópíunnar. Barnið. Einhverja hluta vegna verður Ómelas trúanlegri þegar við vitum hver kostnaðurinn er. Með þessu er dreginn upp spegill að okkar eigin samfélagi, enda eigum við flest farsíma eða kaupum föt án þess að þora að spyrja að kostnaðnum á bak við neysluna; sjálfsmorðsnet í verksmiðjum og barnaþrælkun á saumastofum.

Barnið eins og útópían er bæði ljós og óljós. Þetta er líka gert til að lesandinn geti dregið upp sína eigin mynd. Til dæmis sagt að barnið „gæti verið stelpa, gæti verið strákur“. Með þessu fjarlægir Le Guin kynjapólitík úr sögunni og leifir okkur að finna til með barninu án þess að það séu einhver formerki tengd því. Allar lýsingarnar á aðstöðunni kjallaranum og hvernig komið er fram við barnið eru hræðilegar. Í raun jafn hræðilegar og lýsingarnar á Ómelasborg eru fallegar. Maður finnur fyrir andstæðunum og getur nánast fundið bragðið af þeim en sagan er ekki búin.

Þegar búið er að sjokkera okkur með því að lýsa barninu þá kemur eitt loka högg. Flestir Ómelsabúar samþykkja örlög barnsins en þó eru örfáir:

Stundum fer unglingsstúlka eða strákur, sem hafi séð barnið, ekki heim í ofsareiði eða til þess að gráta. Þau fara, í raun, ekki heim. Stundum þagnar einnig eldri maður eða kona í einn eða tvo daga og yfirgefa svo heimili sitt. Þetta fólk fer út og gengur aleitt eftir götunni. Þau halda áfram og ganga í gegnum fallegu hliðin þar til þau eru komin út úr Ómelasborg.“

Þarna kemur titill til sögunnar: Þau sem ganga burt frá Ómelsa, The Ones Who Walk Away from Omelas. Með þessu setur sagan okkur í hlutverk Ómelasbúa. Værum eitt þeirra sem myndi ganga burt frá Ómelas? Auðvitað óskum við öll að svo sé en ég held að líklegast sé svarið líklegast, nei.

The Ones Who Walk Away from Omelas hefur oft verið borin saman við við The Lottery eftir Shirley Jackson sem kom út árið 1948. Báðar sögurnar eru kenndar í heimspeki og lagakúrsum því þær vekja upp erfiðar siðferðislegar spurningar. Samanburðurinn er skiljanlegur enda fjalla þær báðar um hvernig samfélagið er tilbúið að líta fram hjá því hærðilega þegar það hentar fjöldanum. Þetta minnir mig á tilvísun í Star Trek: The Wrath of Khan: „the needs of the many outweigh the needs of the few“.

Faðir Le Guin var þekktur félagsfræðingur og á heimili hennar bjó einn af síðustu frumbyggjum Norður Ameríku sem lifði algerlega samkvæmt gamla lífsstíl hyrðingjasamfélagsins. Hann passaði illa inn í samfélag Bandaríkjamanna og það litaði skáldskap Le Guin. Hún hugsaði því mikið um stöðu fólks í samfélögum og var mikill samfélagsrýnir eins og sést í The Ones Who Walk Away from Omelas. Hún var einnig anarkisti en samkvæmt textanum þá er Omelas anarkistasamfélag og því fullkomið í hennar augum.

Ég þekki ekki lög og reglur þessa samfélags en mig grunar að þær hafi verið einstaklega fáar.“

Hugmyndina af Ómelas fékk Le Guin þegar hún var að keyra í gegnum Oregon fylki. Hún keyrði fram hjá skilti merkt borginn Salem og var lítið í baksýnisspegilinn. Þar fékk hún hugmyndina að útópíu sinn en Omelas er Salam, O(regon) aftur á bak.

Sagan hefur haft víðtæk áhrif. Eins og áður sagði þá hefur hún verið notuð í kennslu. Leikjahöfundar tölvuleiksins Dishonored (2012) vilja meina að persónan „the Outsider“ sé undir áhrifum frá The Ones Who Walk Away from Omelas. N.K. Jemisin skrifaði smá sögu sem heiti The Ones Who Stay and Fight sem er svar við sögu Le Guin. Ég hef mikið dálæti á Jemisin og las því sögu hennar. Niðurstaða mín var að við Jemisin skiljum The Ones Who Walk Away from Omelas á ólíka vegu. Bíómyndin Us (2019) var undir áhrifum frá The Ones Who Walk Away from Omelas ásamt sögu Octaviu E Butler Speech Sounds. Þriðja sería Star Trek Discovery sækir innblástur til sögunnar sem og þátturinn Lift Us Where Suffering Cannot Reach í seríunni Star Trek: Strange New Worlds.

The Ones Who Walk Away er ein af mínu uppáhalds sögum og ég get ekki mælt nógu oft með henni.

Afþreyingarbókmenntir eru frábærar

Written by admin

Fyrir nokkru fann ég bók á Storytel sem heitir Hell Divers. Ég hafði oft séð mælt með henni á annarri hljóðbókaveitu, Audible, og ákvað að hlusta. Ég held að þessi bók sé alls ekki allra. Hún er uppfull af skrímslum og hetjum sem eru svo harðar að það er nánast kómískt. Samt var eitthvað sem heillaði mig. Ég hafði gaman af henni en skammaðist mín nánast fyrir það. Af þeim sökum beið ég með að byrja á framhaldinu í nokkra mánuði en lét svo tilleiðast og hlustaði á sex bækur í seríunni í einni beit. Ég er að vísu ekki að mæla með bókaseríunni en hún hentaði mér vel á sínum tíma. Það er nefnilega stundum þanngi að maður finnur sér eitthvað og það þarf ekki að vera allra.

Bækurnar falla undir bókaflokkinn Grimdark. Nafn hans á uppruna sinn að sækja til auglýsingatexta úr Warhammer 40,000: „In the grim darkness of the far future there is only war.“ Ef maður flettir upp á skilgreingu bókaflokksins þá fær maður eftirfarandi skilgreiningu: „a genre of fiction, especially fantasy fiction, characterized by disturbing, violent, or bleak subject matter and a dystopian setting.“ Sem sagt hér um ræðir bókaflokk þar sem allt er ömurlegt fyrir allar. Íslenskt heiti gæti jafnvel verið ömurðarskáldskapur. Frægir Grimdark höfundar eru George R.R. Martin, Joe Ambercrombie, Steven Ericsson og Mark Lawrence

En Hell Divers er ekki bara Grimdark hún er svo Grimdark að það er fyndið. Í bókaflokknum býr mannkynið í risastórum loftskipum því jörðin er óbyggilegt eyðiland. Skipin ferðast á milli staða til að finna vistir en til að ná í þær er harðasta sérsveitin í bransanum. Starf hennar er svo hættulegt að tölfræðin gengur ekki upp. Það er, að svo margir eiga að deyja ár- eða mánaðarlega í sérsveitinni að að loftskipið yrði fljótlega mannlaust. Þessi ofursveit ferðast niður á yfirborðið þar sem lífríkið hefur bara eitt takmark, að drepa fólk. Hér eru ekki lengur neinir grasbítar hvert einasta dýr er stórhættulegt rándýr, sem ætlar sér að drepa menn (aftur gengur dæmið ekki upp). En það skiptir engu máli. Í það minnst ekki fyrir mig, því þetta er bara þannig bók.

Ég gerði mér nefnilega grein fyrir að þetta er bara afþreying. Á sama hátt og þegar ég horfi á stutta gamanþætti eða lélega vísindasagna myndir. Í báðum flokkum hef ég auðvitað líka gaman af því að horfa á gæðaefni en stundum þarf maður bara afþreyingu. Það er gott að geta slökkt á heilanum í augnablik. Að gera það í lestri og áhorfi er þúsund sinnum betra en að fara á Facebook, því samfélagsmiðar hjálpa okkur engan vegin að hvílast. Þeir eiga meira sameiginlegt með spilakössum en afþreyingu. Gefa okkur dópamínskammt en ekki hvíld. Bækur og sjónvarp hjálpa okkur aftur á móti að slaka á (sumir vilja meira að segja meina að sjónvarp geri það of vel). Það er því ekkert að því að finna sér afþreyingu, líka í bókmenntum. Sama hvort það sé spennusögur Arnaldar, Fifty Shades of Grey eða í mínu tilviki Hell Divers. Við getum ekki alltaf lesið hábókmenntur enda eru sumar þeirra alveg hrútleiðinlegar. Margir aðrir hafa þegar uppgötvað hið sama, því þó að fáir viti af því, þá eru ástarsögur (e. romance) eru fimmtíu prósent af öllum seldum skáldskap (e. fiction) í Bandaríkjunum. Ástarsögur eru yfirleitt ekki minn tebolli en frábært hvað margir hafa gaman af því að lesa þær.

Varðandi Hell Divers seríuna þá get ég ekki sagt að bækurnar hafi verið mjög innihaldsríkar en þær voru spennandi og það var gaman að sjá hverju höfundurinn fann upp á næst. Mér skilst að bók númer átta hafi komið út í ár en eftir sjö bindi var ég góður. Ég veit að þetta mun halda áfram að eilífu og nú var það bara komið gott. Því alveg eins og þegar maður hefur gott af því að lesa afþreyingarbókmenntir þá er gott að vita hvenær maður á að hætta og þetta á við um allar bækur. Nota bene er þetta atriði er nokkuð sem ég á mjög erfitt með sjálfur. Ef þú ert ekki að njóta lestursins, hvort sem það er eftir fimmtíu blaðsíður, hundrað eða sjö bækur þá er allt í lagi að hættu. Við erum hvort eð er einungis að lesa fyrir okkur sjálf og ekkert er verra en að leyfa sömu leiðindarbókinni að sitja ólessinni á náttborðinu svo vikum eða jafnvel mánuðum skipti. Ég held til dæmis að The Terror eftir Dan Simmons hafi setið á mínu náttborði í rúmt ár áður en ég sagði þetta er gott og lét hana bara aftur upp í hillu.

Bestu vísindasmásögur allra tíma: Nightwings

Written by admin

Ég hlustaði nýlega á nóvelluna Nightwings eftir Robert Silverberg. Hún er í grunninn ævintýri sem er sett í vísindasagna búning með álfum um umbreytingum (e. shapeshifters). Sú útgáfa sem ég las var skáldsagan Nightwings sem er samsett úr þremur nóvellum; Nightwings (1968), Perris Way (1968) og To Jorslem (1969). Sögurnar þrjár mynda eina heild þó augljóst sé hvar ein endar og sú næsta byrjar.

Fyrsta sagan, Nightwings, fjallar um ferð þriggja einstaklinga til Rómar (Rum/Rúmar), samskipti þeirra og stöðu í samfélaginu. Sögursviðið er fjarlægð framtíð þar sem hnignun mannkyns hefur átt sér stað. Þetta er þó langt því að vera eins og í Mad Max. Í staðinn ferðast lesandinn til eins konar miðaldarsamfélgas sem er litað af framtíðartækni. Persónur eru settar í stéttir sem skilgreina hlutverk þeirra og stöðu í samfélaginu. Aðalsöguhetjan er sjáandi en hlutverk þeirra er að fylgist með himnunum í leit að vísbendingum fyrir væntanlega geimveruinnrás. Annar ferðalangur er ung stúlka sem er með vængi en hún getur aðeins notað þá á nóttunni (þaðan kemur titillinn) og þriðji ferðalagnurinn er umbreytingur en litið er á þá sem annars flokks samfélagsþegna og þeir oftast útskúfaðir.

Sagan er ekki stutt en býr til frumlegan framtíðarheim. Ég myndi halda að A Canticle for Leibowitz (1959) eftir Walter M. Miller hafi haft áhrif á Silverberg. Þó sögurnar séu mjög ólíkar, önnur er drama en hin farsi/kómedía þá er ákveðið líkt með uppsetningu hnignunarsamfélagsins. Þetta er alls ekki ólíklegt enda hefur Silverberg verið hluti aðdáendasamfélagi (e. fan community) vísindasagna í áratugi. Hann fór á sitt fyrsta Worldcon á sjötta áratug síðustu aldar og hefur reynt að mæta á hverja einustu hátíð síðan þá. Ég var svo einstaklega heppinn að fá heyra hann tala um sögu vísindaskáldskapar bæði í London (2013) og í Helsinki (2018). Sagan hans er nokkuð merkilega en hann hóf feril sinn aðdáendi en varð svo með tímanum einn af áhrifamestu vísindasagnahöfundum allra tíma.

Stéttarskipting Nightwings og hið miðaldarlega framtíðarsamfélag minnir líka eilítið á heim borðspilsins Warhammer 40,000. Ég velti fyrir mér hvort hugmyndasmiðir Games Workshop hafi ekki lesið Silverberg. Þó það sé margt ólík er margt svipað; stéttir (e.guilds), vélþjónar (e. servitors), heilakrukkur (e. brain jars), bæði sækja mikið til Rómaveldis og báðar sögurnar gerast fjörutíu þúsund ár í framtíðinni. Ég velti líka fyrir mér hvort að Gene Wolf hafi sótt innblástur í Nightwings þegar hann skirfaði Book of the New Sun en ég ekki séð það staðfest.

Nightwings er sjálfstæð nóvella en hefur eins og áður sagði tvö framhöld. Hún getur þó vel staðið sjálfstæð en það kæmi mér mikið á óvart ef lesandi myndi ekki glugga í framhaldið eftir að hafa lokið við fyrstu söguna. Perris Way (1968) fjallar um ferðalag sjáandans til París (Perrís/Perris) með prins Rúmar og To Jorslem (1969) fjallar um ferðalag hans til Jerúsalem (Jorslem) með morðingja. Báðar sögurnar bæta heilmiklu við heiminn og gera söguna heildstæðari. Síðasta saga þjáist þó í bláendan af leiðindar sagnaminni sem er líklega barn síns tíma.

Nightwings var gefin út í September 1968 í Galaxy Magazine. Hún vann Hugo verðlaunin sem besta nóvellan árið 1969 og var útnefnd árið 1968 í sama flokki til Nebula verðlaunanna. Hún var aðlöguð sem myndasaga hjá DC Science Fiction árið 1985. Skáldsagan Nightwings er aðgengilega á Storytel og ég mæli eindregið með henni.

Bestu Vísindaskáldsögur 19. aldarinnar: Tímavélin

Written by admin

Tímavélin eftir H.G. Wells var gefin út árið 1895 og er eitt af tímamótaverkum vísindaskáldsagna. Sagan er nokkuð stutt og mætti jafnvel frekar kalla nóvellu en skáldsögu. Það gera hana þó auðvitað ekkert síðri enda einstaklega skemmtileg og langt á undan sinni samtíð.

Bókin er rammasaga og fjallar um mann sem heldur matarboð. Maðurinn er aldrei nefndur á nafn og yfirleitt kallaður tímaferðalangurinn þegar verið er að fjalla um bókina. Hann segir gestunum frá tímaferðalögum sínum til fjarlægðar framtíðar ársins 802,701. Þar hefur mannkynið hefur þróast í tvær ólíkar tegundir Eloja og Morloka. Elojar eru afkomendur hástéttarinnar. Þeir lifa í vellistinum en hafa einn ótta Morloka. Þeir eru vitgrannir og nánast saklausir. Morlokarnir eru aftur á móti afkomendur lágstéttarinnar sem þurftu að dúsa öldum saman í verksmiðjum í iðrum jarðar. Þar hafa þeir breyst í skrímsli sem eiga lítið skilið við menn lengur og éta Elojana. Tímaferðalangurinn tekur sér stöðu með Elojunum og þarf að berjast við Morlokana. Ímyndunarafl Wells virðist nánast endalaust, því bókin er mjög frumleg sérstaklega þar þegar tekið er mið af því að hún var skrifuð fyrir aldamótin 1900. Enska útgáfan er aðgengileg á netinu þar sem bókin er utan höfundaréttar.

Tímavélina kom út í íslenskri þýðingu Magnús Jónssonar frá 1967. Merkilegt er frá því að segja að á kápunni var notuð mynd af geimskipi úr bíómyndinni Innrásin frá Mars (1953). Ég þessa útgáfu hana í bókaskápnum hjá ömmu minni og hef verið sirka sjö ára. Bróðir minn sagði mér lauslega frá söguþræðinum og ég var bergnuminn. Að vísu ímyndaði ég mér Molokana sem risavaxna orma, þannig að eitthvað hefur farið úrskeiðis í frásögninni, enda á bróðir minn það til að ýkja. Ég var skiljanlega spenntur að lesa bókina en mér sagt að hún væri flókin og ég þyrfti að bíða í nokkur ár áður en ég myndi leggja í hana. Árin urðu ansi mög en að lokum las ég þessa sömu íslensku útgáfu þegar ég var farinn að nálgast þrítugt. Það breytir því ekki að bókin er að mínu mati frábær. Hún hafði það mikil áhrif á mig að mörgum árum síðar samdi ég lag um söguna (sem má finna hér).

Wells hefur stundum verið kallaður faðir vísindaskáldskapar en það er ekki alveg réttnefni því að Verne varð fyrri til skrifa vísindaskáldskap og Shelley skrifaði Frankenstein áður en Verne og Wells fæddust. Wells er samt alger risi í sögu vísindaskáldskapar og bjó til mörg sagnaminni sem eru enn mikið notuð í dag. Geimveruinnrásin (Innrásin frá Mars), tímaferðalög (Tímavélin), tækniútópíur (The Shape of Things to come), genatilraunir (The Island of Doctor Moreau) og margt fleira. Án hans væri vísindaskáldskapur ansi ólíkur því sem við þekkjum í dag. Tímavélin var fyrsta skáldsaga Wells en hann var einungis 29 ára þegar hún kom út. Wells hafði sterkar stjórnmálaskoðanir og aðhylltist sósíalisma sem má sjá í verkum hans, til dæmis í stéttaskiptingu framtíðasamfélagsins í Tímavélinni.

Bókin hefur verið kvikmynduð fjórum sinnum; sjónvarpsleikrit árið 1949, stórmynd með Rod Taylor árið 1960, sjónvarpsmynd frá 1978 og önnur stórmynd að þessu sinni með Guy Pearce árið 2002 en sú var leikstýrð af barnabarni Wells. Af þessum fjórum hafa stórmyndirnar vakið mesta eftirtekt og sú frá 1960 þykir klassík þó hún sé barn síns tíma. Hún er stutt og það er þess virði að kíkja á. Margir hafa væntanlega séð myndina frá 2002, sjálfur sá ég hana í bíó. Hún var að mínu mati vonbrigði þó hún hafi sinn sjarma.

Sagan hefur einnig verið aðlöguð á sviði og í útvarpi. Einnig hefur tímaferðalangur Wells verið gestur eða aðalhetja í öðrum verkum. Time after time er kvikmynd frá árinu 1979 þar sem aðalsögupersónan er Wells og er hann jafnframt settur í hlutverk tímaferðalangsins. Hann ferðast til samtíma myndarinnar þar sem hann þarf að kljást við Kobba kviðrista (e. Jack the Ripper). Útgáfa af tímaferðalanginum var einnig í stökum þáttum af Doctor Who, Lois & Clark: The New Adventures of Superman og kvenkyns tímaferðalangur var í sjónvarpsþáttunum Warehouse-13. Dæmin eru fleiri en ég læt þessa upptalningu duga. Flestir þessara tímaferðalanga eru samnafnar H.G. Wells.

Aðrir höfundar hafa svo prófað að skrifa framhald af Tímavélinni og samkvæmt Wikipedia eru þau í það minnsta átján. Af þeim held ég að The Time Ships eftir Stephen Baxter sé þekktust en hún var skrifuð árið 1995 og samþykkt af dánarbúi Wells.

Tímavélin er alveg einstaklega skemmtilega bók sem ég mæli með fyrir alla. Hún var nánast lygilega langt á undan sinni samtíð og bjóð til heilan undirflokk (e. sub-genre) í vísindaskáldsögum, þ.e. tímaferðalagssöguna. Hún er ein af þeim bókum sem ég mæli 100% með.

Bestu vísindasmásögur allra tíma: A Rose for Ecclesiastes

Written by admin

Nýverið var ég að lesa bók um Hugo verðlaunin og virðast margir vera á því máli að smásagan A Rose for Ecclesiastes eftir Roger Zelazny hafi átt að sigra árið 1964. Sagan sem sigraði það ár var No Truce for Kings eftir Poul Anderson. Ég hef ekki lesið sigursöguna og get því ekki haft álit á hver átti að vinna. Á þessu tíma var ekki búið að skipta smásögu flokknum niður í smásögur, nóvellettur og nóvellur. Sú skipting kom síðar og er enn við líði í dag. Það er ansi ólíkt að lesa fimm þúsund orða smásögu og þrjátíuogfimm þúsund orða nóvellu svo það gæti eitthvað haft áhrif á hvor sagan vann. En ég er svo sem bara að geta mér til þar.

A Rose for Ecclesiastes er skrifuð rétt þegar geimkapphlaupið er að hefjast og með síðustu sögum sem leyfir sér að ímynda sér siðmenningar á nágrannaplánetum okkar. Nokkuð sem var ómögulegt örfáum árum síðar þegar geimför eins og Viking og Mariner höfðu sannað að aðrar reikistjörnur sólkerfisins voru líklegast líflausir hnettir. Það er eins og Zelazny geri sér grein fyrir þessu en leyfi sér jafnframt að skrifa í bókmenntaflokki sem er að hverfa. Bókmenntaflokki sem inniheldur klassískar sögur eins og Martian Chronicles og Have Spacesuit Will Travel. Zelazny hafði dálæti af svona sögum og langaði að skrifa þær. Hann leyfði því sinni fyrstu sögu, A Rose for Ecclesiastes, að fjalla um deyjandi siðmenningu á Mars og ljóðskáldið Gallinger.

Gallinger er söguhetjan sem stendur á skjön við aðra. Hann er ljóðskáld og sér heiminn öðruvísi en aðrir. Hann er fenginn til að fara Mars þar tekst honum að þýða tungumál Marsbúanna nokkuð sem her af málvísindamönnum hafði ekki tekist að gera. Með því kemst Gallinger í samband við deyjandi menningarheim Marsbúanna sem virðist vera dauðadæmdur af eigin trúarbrögðum.

Eins og mikið af skáldskap Zelazny þá er sagan gegnsýrð af trú og hvaða þýðingu hún og kraftaverk hafa. Í lokin spyr lesandinn sig hvað er kraftaverk og hvað eru lygi notaður í trúarlegum tilgandi. Sagan tæklar mörg önnur þemu eins og skyldu og samfélagsstöðu. Hún ber þess merki að vera skrifuð á snemma á sjöunda áratugnum en alveg þess virði að lesa eða hlusta á.

Hægt er að nálgast hana meðal annars á Spotify á hlaðvarpi Escape Pod.

100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #8 Do Androids Dream of Electric Sheep

Written by admin

Bókin Do Androids Dream of Electric Sheep eftir Philip K. Dick var gefin út 1968. Hún vakti þó nokkra athygli á sínum tíma en nánast allar heimildir sem ég fann um bókina minntust líka á aðlögun Ridley Scott á bókinni, bíómyndina Blade Runner. Það má ræða hvort verkið sé áhrifameira bókin eða myndin.

Do Androids Dream of Electric Sheep er ein fyrsta hljóðbókin sem ég hlustaði á. Þetta var árið 2005, fyrir tíma Audible og Storytel. Ég fann því eintak á Piratebay og hlustaði á það á iPod-inum mínum á leiðin í og úr skóla. Gallinn við þetta fyrirkomulag er að ég gerði mér enga grein fyrir að útgáfan sem ég hlustaði á var stytt. Ég fattaði þetta ekki fyrr en 2019 þegar ég fékk Masterworks útgáfu af bókinni í afmælisgjöf.

Bókin gerist árið 1992 eftir World War Terminus (endastöðvastyrjöldina), í seinni útgáfum var ártalið fært til 2021. Flestir hafa flúið jörðina og þau fáu sem eftir eru lifa tómlegum heimi. Dick býr til heim þar sem eru raðir af stórum fjölbýlishús en hvert þeirra er með örfáa íbúa sem gerir þessa veröld einmannlega. Bókin segir frá Rick Deckard, mannaveiðara (e. bounty hunter) sem er fenginn til að elta upp strokuvélmenni. Vélmennin hafa flúið frá Mars til Jarðarinnar. Samhliða sögunni um Deckard fær lesandinn að fylgjast með John Isidore sem skýtur skjóli yfir vélmennin á meðan þau eru á flótta.

Eitt megin þema bókarinnar er samkennd en það er eitt af því fáa sem greinir af menn og vélmenni í þessum heimi. Þemað um samkennd kemur fram á nokkra vegu. Eftir heimstyrjöldina eru nánast öll dýr útdauð. Þau fáu sem lifðu eru höfð sem gæludýr og eru nú orðin stöðutákn á meðan manna. Deckard er nýbúin að missa geit og haðfi einungis efn á gervikind sem hann geimir á þakinu og lýgur að nágrönnunum að sé alvöru. Vélmennin deila ekki þessari samkennd með dýrunum og það er undirstrikað í einstaklega áhrifamikilli senu þar sem þau finna og misþyrma könguló. Annað sem tekur á samkenndarþemanu er spámaðurinn Wilbur Mercer og trúarbrögðin sem hann boðar í gegnum sýndarveruleika. Þar fá iðkendur að fylgja honum í gegnum eyðimörk og upplifa þjáningar hans á meðan múgur misþyrmir Mercer.

Af þessu má sjá að Blade Runner er ekki mjög nákvæm aðlögun á Do Androids Dream of Electric Sheep. Miklu var breytt, til að byrja með var titlinum breytt í Blade Runner (íslensku Sporfari) en nafnið kemur frá annarri bók eftir William S. Burroughs. Vélmennin eru hættulegri í myndinni, eiginkona Dekard var ekki hluti af myndinni né heldur spámaðurinn Mercer og svo spilar Isidore mun stærra hlutverk í bókinni. Margt annað var ólíkt en samt er einnig margt sem myndin sækir í söguna. Myndin nánast sjálfstætt verk og er einnig mikilvægt verk í sögu vísindaskáldsagna. Rétt áður en Dick lést fékk hann að sjá brot úr myndinni og var heillaður. Hann sagði að myndinni hefði tekist að veita heimi hans líf.

Blade Runner hafði mikil áhrif á Cyberpunk (ísl. vélpönk) hreyfinguna sem kom fram á 9. áratugnum og af sumum verið kölluð upphaf þeirrar stefnu. Áhrif bíómyndarinnar eru í raun svo mikil að hægt er að halda því fram bókin eigin myndinni allt að þakka en jafnframt má færa rök fyrir hinu gagnstæða. Bókin var langt á undan sinni samtíð. Hún var útnefnd til Nebula verðlaunanna árið 1968 en tapaði fyrir Rite of Passage eftir Alexei Panshin (aldrei heyrt um bók eða höfund áður). Ólíkt öðrum höfundum eins og Isaac Asimov þá bjó Dick til vélmenni sem voru gerð úr lífrænum hlutum og því nánast óaðgreinanlegir frá mönnum. Jafnvel mætti velta fyrir sér hvort gervimaður eða þjarki væri betri þýðing á orðinu android þegar bókin er annars vegar. Ég ætla samt að halda mér við vélmenni í þessari grein.

Bókin aldrei verið þýdd á íslensku en talsvert verið skrifað um Blade Runner á íslensku. Eins og sagt hefur verið frá þá hefur bæði bókin og myndin haft mikil áhrif. Bókin hefur verið aðlöguð sem útvarpsleikrit, í leikhúsi og sem myndasaga. Myndasagan er sérstaklega eftirtektarverð þar sem hún inniheldur allan textann úr bókinni. Fjögur framhöld skrifuð sem eru ekki eftir Dick og reynt er að tengja myndina og bókina þó verkin séu ólík. Árið 2017 kom svo úr framhald af myndinni, Blade Runner 2049 sem sækir einnig í bókina til mynda.

Do Androids Dream of Electric Sheep er einstakt verk sem aðdáendur myndarinnar ættu algerlega að skoða. Verkin eru þó mjög ólík og ekki endilega samasemmerki á milli þess að elska myndina og bókina.

100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #7 Foundation

Written by admin

Dálítið er síðan ég skellti í síðasta pistil en við fluttum hérna í Köben og fórum svo í sumarfrí þannig að það er búið að vera nóg um að vera. Nú er þó loksins komið að því að fjalla um næstu bók á listanum góða, sem er Foundation eftir Isaac Asimov.

Árþúsundir í framtíðinni ríkir risavaxið keisaraveldi yfir allri vetrarbrautinni og uppruni mannkyns á Jörðinni er nánast gleymdur. Miðja veldisins er staðsett á plánetunni Trantor en þar er hver einasti fermetri byggður. Mannkynið dvelst neðanjarðar og einungis ferðamenn og skólabörn skoða yfirborðið. Í þessu framtíðarsamfélagi hefur vísindamaðurinn Hari Seldon uppgötvað nýja fræðigrein sem sameinar stærðfræði, félags-/sálfræði og mannkynssögu. Nýja fræðigreinin er kölluð sálarsagnfræði* (e. psychohistory). Hún nýtir tölfræðilegar aðferðir til að spá fyrir um hegðun samfélaga fram í tímann. Niðurstöður rannsókna Seldon sýna að keisaraveldi mannkyns riði að falli og ef ekkert er gert muni fallið leiða af sér þrjátíuþúsund ára tímabil fáfræði. Hari hryndir því af stað áætlun til að hindra þessa þróun.

Ég las Foundation fyrst árið 2005 á meðan ég var í framhaldsnámi í Danmörku. Ég man að það tók ekki langan tíma að klára bókina enda hafði ég hana alltaf með mér í strætó eða lestina. Hún var næstum of stór til að geyma í vasanum en þetta gekk þó (ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög kúl á þessum árum haha). Ég var svo ánægður með lesturinn að á næstu mánuðum þar á eftir kláraði ég tvö framhöld og eina prequel.

Foundation er ein áhrifamesta vísindaskáldsaga allra tíma. Til marks um það var árið 1966 veitt sérstök Hugo verðlaun fyrir bestur seríu allra tíma og Foundation vann. Hinar seríurnar sem tilnefndar voru Lord of the Rings eftir Tolkien, Future History eftir Heinlein, Barsoom eftir Burroughs og Lensman E.E. Doc. Smith.

Sumum finnst kannski skrítið að Foundation hafði þótt betri en Lord of the Rings en hvort það sé rétt get ég ekki sagt. Bókin setti þó fram fullt af sagnaminnum sem höfði ekki þekkst fyrir þennan tíma. Til dæmis er þetta fyrsta bókin þar sem sagt er frá veldi manna sem spannar heila vetrarbraut og þúsundir ára. Í Foundation er talað er um alheimsalfræðiorðabók sem síðar hafði áhrif Douglas Adams og Hitchhikers Guide to the Galaxy. Lýsingarnar á Trantor hljóma ansi mikið eins og Coruscant í Star Wars. Dune eftir Frank Herbert er sögð vera í beinni samræðu við Foundation seríuna. Herbert byrjar á svipuðum stað og Asimov, keisaraveldi mannkyns sem er í hnignun, en fær algerlega aðra niðurstöðu. En auk alls þessa hefur Foundation haft áhrif á allt frá Marvel myndasögum að Deep Purple lögum.

Asimov og ritstjóri hans sóttu innblástur í fall Rómarveldis (The History of the Decline and Fall of the Roman Empire eftir Edward Gibbon) og er sagan í fyrstu bókinni mynduð úr fimm smásögum sem spanna 150 ár. Í hverri sögu býr Asimov til átök sem ógna áætlun Seldon. Honum tekst þó alltaf að finna lausn á vandamálinu með rökhyggju en ekki ofbeldi. Bókin var gefin út 1951, en sögurnar fimm höfðu áður verið gefnar út í Astounding Science Fiction á árunum 1942 til 1944. Þær eru því dálítið „dated“ enda skrifuð í hefð gullaldar vísindaskáldsagna. Meiri áhersla lögð á hugmyndir en persónusköpun. Þetta er ekki endilega slæmt en hefur neikvæð áhrif á suma lesendur. Verra er þó að meira mætti vera af áhugaverðum kvenpersónum í sögunum. Ég myndi samt alltaf mæla með að gefa bókinni tækifæri þar sem hún er einstaklega áhugaverð.

Lengi hefur verið reynt að kvikmynda Foundation. Til að mynda átti að kvikmynda söguna árið 1998 hjá New Line Cinema og allt var tilbúið þegar hætt var við og í staðinn var ákveðið að veita Peter Jackson fjármagn til að kvikmynda Lord of the Rings. Síðan þá hafa margar aðrar tilraunir verið gerðar og til dæmis reyndi stórslysaleikstjórinn Roland Emerich að koma verkefni á koppinn en það gekk ekki eftir. Þetta hafðist þó að lokum því að nýir þættir eru í bígerð hjá Apple og verða frumsýndir í September 2021 (sjá stilkluna að neðan). Mér finnst mjög áhugavert að nýja Dune kvikmyndin kemur út mánuði síðar og því hægt að skoða hvort þessar sögur eigi enn upp á pallborðið eða hvort þær hafi verið of áhrifamiklar eins og John Carter og hafi því ekki mikið nýtt fram að færa**.

Foundation er fyrsta bókin á listanum sem aldrei hefur verið þýdd á íslensku sem er synd. Bókin er þó auðveld lestrar og ekki löng. Hún er fyrsta bókin í þríleik en eftir að henni var lokið ákvað Asimov að skrifa fjórar bækur til viðbótar. Bókin kemur með einstaklega áhugaverðar pælingar og situr í manni lengi eftir að lestrinum er lokið.

*Mín þýðing á orðinu og er kannski ekki sú besta en maður verður að reyna.

**Þetta er kannski efni í annan pistil en ég vildi bara eilítið útskýra mál mitt. Til eru margar ástæður fyrir því af hverju myndin John Carter gekk ill, meðal annars léleg auglýsingaherferð. Sumir hafa þó fleygt því fram að bókin kom út árið 1912 og því allt sem gerði hana sérstaka á sínum tíma verið nýtt í önnur verk. Til að mynda sótti Star Wars margt í Princess of Mars og líka í Foundation. John Carter hafi því komið út of seint til að vekja sömu undrun hjá bíógestum og hún hafði áður gert hjá lesendum.

100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #6 Brave New World

Written by admin

Hvað gerist ef við fórnum öllu fyrir hamingjuna? Þar á meðal fjölskyldunni, fegurðinni og frelsinu. Er það þess virði? Þetta er spurningin sem Brave New World setur fram. Ekki nóg með það bókin sýnir okkur kosti þess og galla að búa í framtíðasamfélagi þar allir hafa fyrir fram ákveðið hlutverk en eru jafnframt sáttir með sitt hlutskipti.

Brave New World eftir Aldous Huxley er í sjötta sæti listans. Bókin var gefin út 1932 og þykir klassísk verk bæði meðal vísindaskáldsagna og klassískra bókmennta. Brave New World, eða Veröld ný og góð var þýdd árið 1988 af Kristjáni Oddssyni.

Útópía eins mans er distópía annars. Þetta er oft sagt þegar verið er að ræða distópíur en á sérstaklega vel við þegar Brave New World er annars vegar. Í upphafi bókarinnar er sagt frá hvernig mannfólk þessa framtíðarheims er búið til í tilraunaglösum og úthlutað stétt. Búið er að kortleggja alla fyrir fæðingu til að ákveða hvort þeim hentar betur fræðistörf, þjónustustörf eða verkamannastörf. Efst er Alfa stéttin og neðst er epsilon. Börnum er kennt frá unga aldri að kynlíf sé ekkert að óttast og eitthvað sem allir deila og ekkert sé til sem heitir náið einkvænis samband. Fullorðið fólk skiptir um hjásvæfur jafn reglulega og sokka og orgíur eru nánast eins of hver annar samkvæmisleikur.

Við kynnumst söguhetjunni Bernard sem er í alfa stétt en hann er jafnframt gallað eintak. Eitthvað fór úrskeiðis þegar hann var fóstur og hefur það hrjáð hann alla ævi. Bernard passar því ekki inn í samfélagið og vekur óþægindi hjá samborgurum sínum og er hótað að senda hann í útlegð til Íslands. Huxley fannst klakinn greinilega ekki jafn heillandi og okkur Íslendingum. Bernard fer með kærustu sinni á verndarsvæði í New Mexico þar þau finna villimanninn John. Móður hans heimsótti verndarsvæðið fyrir löngu en varð viðskila við ferðafélaga sína. Þetta leiddi til þess að John fæddist í útleigð. Móðir hans passaði illa inn í samfélag verndarsvæðisins sem leiddi til útskúfun þeirra beggja. Nú vill Bernard fara með John til London en það mun einungis leiða til annarrar útskúfunar.

John er tvímælalaust áhugaverðasta persónan í Brave New World og fer í hlutverk gestsins sem heldur í hönd okkar á meðan við ferðumst í gegnum þessa ókunnugu veröld. Hann bendir á vankanta og passar illa inn í samfélag framtíðarinnar eins og lesandinn.

Brave New World er sérstök sem distópía. Hún er ekki eins lituð af einræði 20. aldarinnar. Hún er gefin út áður en Hilter náði völdum og ógnaröld Stalín var ekki búin að ná hámarki. Bókin einbeitir sér frekar að því að sýna lesandanum veröld þar sem mannkynið er búið að gefa eftir sínum einföldustu löstum. Aðgengi að eiturlyfjum og kynlífi algert og samfélagið gengur áfram á þessari einföldu hamingju sem gefur engum dýpri uppfyllingu.

Ég las Brave New World fyrst 13 ára og fannst bókin mögnum. Á þeim tíma þótti mér sumt í þessu framtíðarsamfélagi Huxley eftirsóknarvert en það hefur líklegast eitthvað með unglingahormón að gera. Ég las bókin svo aftur fyrir nokkrum árum og hún var ögn þurrari en mig minnti. Hún er samt alger gersemi.

Brave New World hefur verið kvikmynduð tvisvar 1980 og 1998. Ég sá eitthvað í myndina frá ’98 og get ekki sagt að ég mæli með henni. Í fyrra var sjónvarpssería framleidd fyrir Peacock í Bandaríkjunum. Hún fékk meðalgóða dóma en ekki nægilega gott áhorf til að réttlæta aðra seríu. Bókin hefur einnig verið aðlöguð fyrir bæði leikrit og útvarp.

Eins og allar bækurnar sem ég hef fjallað um er Brave New World þess virði að lesa en eins og 1984 þá er dálítið þurr ekki mikill hasar í bókinni. Hún bætir það samt upp með einstaklega frumlegri heimsmynd sem lætur mann hugsa um sitt eigið samfélag og hvert það stefni í framtíðinni.

100 Bestu Vísindaskáldsögur 20. aldarinnar: #5 1984

Written by admin

1984 eftir George Orwell er í fimmta sæti á listanum og jafnframt að mínu mati áhrifamest í bókmenntasögunni. Eins og flestir þá heyrði ég ungur um hugtakið Stóri Bróðir en ég las þó ekki bókina 1984 fyrr en undir tvítugt. Ég bjóst því við ansi miklu þegar ég greip hana í bókabúð á sólarströnd og hún stóð svo sannarlega undir væntingum. Bókin er samt ekki gallalaust verk og hef ég alltaf verði falari fyrir Fahrenheit 451 þegar distópíur eru annars vegar. 1984 er samt stórvirki í bókmenntasögunni og bók sem flestir ættu að lesa.

1984 býr til eintaka heimsmynd. Orwell, sem hét í raun Eric Arthur Blair, bjó til heim sem var í senn fjarlægur en jafnframt á næsta leiti ef samfélagið yrði ekki vart um sig. Í bókinni hefur heimsbyggðinni verið skipt upp í þrjú áhrifasvæði; Austur Asíu, Evrasíu og Ósíaníu. Ósíanía samanstendur af báðum Ameríkunum, Suður-Afríku, Eyjaálfu og Bretlandseyjum sem heita nú Flugbraut 1. Þar er Flokkurinn við stjórn og fylgist með öll og öllum. Leiðtogi Flokksins er hinn dularfulli Stóri Bróðir, þó er ekki víst hvort hann sé raunveruleg manneskja eða ekki. Flokkur fylgist náið með lífi þegna sinna og getur látið andófsmenn hverfa sportlaust. Söguhetjan 1984 er Winston Smith sem vinnur hjá Sannleikaráði Flokksins þar sem hann endurskrifar mannkynssöguna og afmáir öll gögn um óvini ríkisins. Við fylgjumst með Winston þar sem hann fer með okkur í gegnum þennan ógnvænlega heim, hefur ólöglegt ástarsamband við konu að nafni Júlíu og þarf að lokum að takast á við afleiðingar gjörða sinna.

Það er margt við heimssköpun Orwell sem er á enn við 70 árum eftir að bókin var gefin út. Hver hefur ekki heyrt að „Stóri Bróðir fylgist með þér“ eða orðið Orvellískt. Hugtök sem eru nánast samofin við eftirlitssamfélag samtímans. Margt fleira er sett fram í bókinni eins og Newspeak, herbergi 101 og hugsunarlögreglan. Jafnvel tvær mínútur af hatri, athöfn í bókinni þar sem samfélagið leyfir sér að hata andstæðinga algerlega í tvær mínútur, er eitthvað sem hefur verið borið saman við samfélagsmiðla samtímans. Áhrifa 1984 eru djúpstæð í bókmenntasögunni og bókin orðin hluti af menningu okkar.

Orwell skrifað 1984 sem viðvörun. Hann áleit að heimurinn stefndi í þessa átt og vildi útskýra alræði fyrir almenningi í Bretlandseyjum sem hélt að fasismi eða kommúnismi gætu aldrei fest þar rótum. Bókin er líka lituð af upplifun Orwille á Spáni þar sem hann barðist fyrir repúblikana. Upphaflega var fólkið á Spáni fullt af samkennd og réttlæti en þegar stríðið byrjaði að tapast breyttist allt. Fram komu stalínískar hugmyndir þar sem ekkert pláss var fyrir ólíkar skoðanir. Annað hvort trúði fólk stefnunni eða það var í liði með óvininum. Í þeim kringumstæðum sá Orwell hvernig náunginn gat snúist gegn nágranna sínum á svipstundu.

1984 hefur tvisvar verið þýdd á íslensku, fyrst árið 1951 og aftur árið 2016. Hún hefur verið kvikmynduð tvisvar, þrisvar sinnum framleidd fyrir sjónvarp, til er aragrúa af útvarpsleikritum, leikritum og jafnvel ópera og ballett. Talað hefur verið um að kvikmynda bókina einu sinni og það einungis tímaspursmál hvenær það verður að veruleika. Verkið er klassískt og mun alltaf eiga upp á pallborðið. Þetta sést bersýnilega þegar skoðuð eru áhrif verksins á aðrar bókmenntir. Gott dæmi er V for Vendetta sem er algerlega gegnsýrð af 1984. Sambærilegt eftirlistsamfélag og Adam Susan leiðtogi Norsfire er alger hliðstæða Stóra Bróður. Önnur verk eins og Hungurleikarnir og Saga þernurnar eru einnig undir áhrifum frá 1984. Í raun er erfitt að finna distópíur sem gefnar eru út eftir 1949 og er ekki undir áhrifum frá bókinni.

1984 er frábær bók sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Hún er ögn þurrari en Fahrenheit 451 og söguþráðurinn (e. plot) ekki jafn sterkur en hún bætir upp fyrir það með hreint magnaðri heimsmynd sem mun breyta sín þinni á samfélaginu.

Útgáfudagur: Silfurfossar

Written by admin

Í dag er útgáfudagur þriðju bókar minnar Silfurfossar. Þau ykkar sem hafið tækifæri til endilega hlustið. Ef þið hafið ekki aðgang má alltaf hlusta hljóðbrot á hlekknum ef þið eruð forvitinn. Unnsteinn Manuel Stefánsson les bókina og er ég mjög ánægður með hann sem upplesara. Alveg einstaklega ánægjulegt að hann hafði tekið að sér þetta verkefni.

Hérna er örstutt um bókina: Árið 2067 taka glæparannsóknir skamman tíma vegna tæknilegra framfara. Kári er nýliði í lögreglunni á Hvolsvelli og starfið er fremur tilbreytingarsnautt. Það breytist þegar hann gengur óvænt inn á vettvang morðs á býlinu Silfurfossum. Morðingjanum virðist hafa tekist að afmá stafræn fótspor sín. Hin gamalreynda Árný verður bandamaður Kára í rannsókninni og saman komast þau að því að ekki er allt sem sýnist, hvorki hjá heimilisfólki né hjá vélmennunum sem á býlinu starfa. Válynd veður loka þau af á Silfurfossum og Kári og Árný lenda í kapphlaupi í tímann við að leysa málið.

Silfurfossar er þriðja skáldsaga Einars Leifs Nielsen. Hann hefur áður gefið út Sýndarglæpi sem sigraði Eyrað, handritasamkeppni Storytel 2019, og Hvíta múra borgarinnar sem kom út 2013. Í Silfurfossum mætast klassísk morðgáta og vísindaskáldskapur á frumlegan og spennandi hátt. Atburðarásin kemur sífellt á óvart og fléttan heldur hlustendum á tánum allt til loka.

Vona að þau ykkar sem hlustið njótið bókarinnar 🙂